fös 12. janúar 2018 14:30
Magnús Már Einarsson
Hafsteinn Briem: Áhuginn var takmarkaður í Pepsi-deildinni
Hafsteinn er mættur aftur í búning HK.
Hafsteinn er mættur aftur í búning HK.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Ég er uppalinn og þykir vænt um félagið. Mér líst vel á metnaðinn hjá fólkinu í kringum HK. Aðstaðan er ein sú besta á landinu og ég er spenntur að vinna undir stjórn Brynjars (Björns Gunnarssonar)," sagði varnamaðurinn Hafsteinn Briem eftir að hann skrifaði undir samning hjá HK í dag.

Hafsteinn hefur verið í stóru hlutverki hjá ÍBV undanfarin þrjú ár en hann varð bikarmeistari með liðinu í fyrra. Í haust tilkynnti Hafsteinn að hann yrði ekki áfram hjá ÍBV.

„Ég ræddi við önnur félög og það voru aðrir kostir sem voru mjög spennandi. En ég var búinn að lofa sjálfum mér að ég myndi aldrei spila með öðru liði í sömu deild og HK."

Hinn 26 ára gamli Hafsteinn hefur spilað í Pepsi-deildinni síðan árið 2014. Var erfitt að taka aftur skrefið niður í Inkasso-deildinni núna? „Það var ekki erfitt þar sem áhuginn var takmarkaður í Pepsi-deildinni. Ég er að koma í lið sem stefnir á að fara upp og ég hlakka mjög til að taka þátt í þeirri áskorun."

HK endað í 4. sæti í Inkasso-deildinni í sumar og Hafsteinn er bjartsýnn fyrir komandi tímabil.

„HK hefur alla burði til að blanda sér í toppbaráttuna að mínu mati. Það er góður kjarni af leikmönnum sem var hér síðasta sumar sem náði flottum árangri og vonandi getum við byggt ofan á það," sagði Hafsteinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner