þri 12. febrúar 2019 22:49
Arnar Helgi Magnússon
Solskjær: Fjöll eru til þess að klífa þau, ekki satt?
Solskjær tekur í höndina á sínum mönnum eftir leikinn í kvöld.
Solskjær tekur í höndina á sínum mönnum eftir leikinn í kvöld.
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjaer, stjóri Manchester United, segir að einvígið sé ekki búið en viðurkennir þó að Parísarliðið sé í mun betri stöðu eftir úrslit kvöldsins.

Leiknum lauk með 0-2 sigri PSG en Presnel Kimbempe og Kylian Mbappe skoruðu mörk liðsins.

„Við getum ekki sest núna niður og hugsað með okkur að þetta sé búið. Við þurfum að fara til Parísar, trúa á sjálfa okkur, spila góðan leik og bæta það sem fór úrskeiðis í kvöld," sagði Ole eftir leikinn í kvöld.

„Þetta var smá spark í rassinn og í dag sáum við hversu góð þessi bestu lið í heimi raunverulega eru."

„Fjöll eru til þess að klífa þau, ekki satt?"

Solskjær segir að ekkert í leik PSG hafi komið sér á óvart í kvöld. Þetta hafi verið leikurinn sem að United bjóst við að spila.

„Þetta var eins og við bjuggumst við. Í fyrri hálfleik horfðu liðin á hvort annað og það var lítið í gangi. Fyrsta markið þeirra var klaufalegt af okkar hálfu og lélegt að gefa það úr föstu leikatriði."

„Þeir hafa reynslumikla menn sem að kunna að loka svona leikjum og það var það sem að þeir gerðu hér undir lokin."
Athugasemdir
banner
banner
banner