þri 12. febrúar 2019 15:15
Magnús Már Einarsson
Túfa: Mjög erfitt að fá íslenska leikmenn
Túfa, þjálfari Grindavíkur.
Túfa, þjálfari Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Patrick N'Koyi og Vladimir Tufegdzic sömdu við Grindavík í gær.
Patrick N'Koyi og Vladimir Tufegdzic sömdu við Grindavík í gær.
Mynd: Grindavík
„Við erum búnir að vera að leita að mönnum fram á við. Þegar þetta bauðst þá ákváðum við að klára dæmið," sagði Srdjan Tufegdzic, þjálfari Grindavíkur, við Fótbolta.net aðspurður út í framherjana Patrick N'Koyi og Vladimir Tufegdzic sem sömdu við félagið í gær.

Hinn 29 ára gamli Patrick kemur frá Top Oss í hollensku B-deildinni en Túfa kemur frá KA þar sem hann spilaði síðari hlutann á síðasta tímabili. Áður var Túfa lengi á mála hjá Víkingi R.

„Patrick var á reynslu í þrjá daga um daginn þar sem hann spilaði á móti FH. Þetta er leikmaður sem er búinn að spila á háu leveli, hefur reynslu og passar í þetta sem við erum að gera, bæði sem karakter og leikmaður. Ég er búinn að kanna menn sem spiluðu með honum í Dundee og Top Oss og vð ákváðum að klára þetta. Túfa hefur verið hérna og við vildum hafa hraða fram á við. Það er ánægja hjá okkur að klára samninga við þessa tvo leikmenn."

Ánægður með liðsstyrkinn
Auk þessara leikmanna hafa Grindvíkingar krækt í varnarmennina Josip Zeba og Marc McAusland í vetur sem og markvörðinn Vladan Djogatovic.

„Ég er mjög ánægður með þessa leikmenn sem við erum búnir að fá. Þetta eru allt atvinnumenn sem eru búnir að spila alvöru fótbolta og eru mjög góðir karakterar. Þetta er allt á réttri leið," sagði Túfa.

Mjög erfitt að fá íslenska leikmenn
Túfa segir að Grindvíkingar hafi reynt að fá íslenska leikmenn í vetur en án árangurs.

„Það er mjög erfitt. Strax eftir að ég skrifaði undir í nóvember reyndum við að fá íslenska leikmenn sem voru samningslausir. Við gátum ekki gengið að kröfum þeirra. Ég útiloka ekki að við getum fengið einhverja íslenska leikmenn, það væri mjög flott í bland við þá leikmenn sem við höfum verið að fá. Þetta er bara erfitt. Peningarnir eru ekki það miklir að við getum gengi að kröfum góðra leikmanna sem styrkja liðið og eru sannir úrvalsdeildarleikmenn."

11 farnir frá því síðastliðið vor
Ekki er útilokað að Grindvíkingar kræki í frekari liðsstyrk áður en keppni í Pepsi-deildinni hefst í lok apríl.

„Úr liðinu sem byrjaði mótið í fyrra eru ellefu leikmenn sem eru ekki á staðnum. Fjórir af þeim fóru yfir sumarið og sjö leikmenn sem spiluðu nánast alla leiki eru farnir. Við höfum fengið fimm leikmenn í staðinn. Allir leikmenn sem við höfum samið við eru komnir til landsins og núna byrjar alvöru vinna hjá þeim með heimamönnunum og ungu strákunum sem hafa æft mjög vel. Núna öndum við aðeins og sjáum til hvað við þurfum meira af styrkingu," sagði Túfa.

Komnir:
Josip Zeba frá HAGL
Marc McAusland frá Keflavík
Patrick N'Koyi frá Top Oss
Vladan Djogatovic frá Serbíu
Vladimir Tufegdzic frá KA

Farnir:
Björn Berg Bryde í Stjörnuna
Brynjar Ásgeir Guðmundsson í FH
Kristijan Jajalo
Matthías Örn Friðriksson hættur
Sam Hewson í Fylki
Sito til Bandaríkjanna

Samningslausir:
Will Daniels
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner