þri 12. maí 2020 19:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Horfðu á Jordao Diogo og hugsuðu: Er hann að fíflast með okkur?
Diogo í leik með KR gegn FH.
Diogo í leik með KR gegn FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Ólafs og Diogo.
Logi Ólafs og Diogo.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Arnór Guðjohnsen hringir í mig og segir mér: 'Ég er í vandræðum með einhvern Portúgala. Það þarf að ná í hann.' Ég held að hann hafi búið hjá Hjálpræðishernum," segir Logi Ólafsson um bakvörðinn Jordao Diogo sem kom til KR fyrir sumarið 2008.

Logi Ólafsson var gestur Jóhanns Skúla Jónssonar í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið í gær. Logi, sem á farsælan feril seim þjálfari, valdi þar ellefu bestu leikmennina sem hann þjálfaði á sínum ferli og sagði skemmtilegar sögur þess fyrir utan.

Logi þjálfaði KR 2007 til 2010 og fyrir sumarið 2008 nældi hann í Diogo sem kom til Íslands í gegnum þá umboðsmanninn og fyrrum fótboltahetjuna Arnór Guðjohnsen. Diogo var boðinn samningur eftir tvær æfingar.

„Nóri kemur með hann á æfingu. Svo byrjar æfingin, það er bara upphitun og svo reitur. Við stöndum þarna ég og Sigursteinn heitinn Gíslason. Við horfum á manninn og hugsum með okkur: 'Er hann að fíflast með okkur?' Hann var stórgóður, bara stórgóður. Það er samið við hann eftir tvær æfingar."

„Við slógum út Larissa frá Grikklandi (í Evrópukeppni 2009) og hann var keyptur þangað; hann var lánaður í eitt tímabil og svo var hann keyptur."

„Ég var að stjórna leik með Víkingi í hitt í fyrra og þá kemur maður gangandi að mér. Þá var það Jordao mættur til Íslands að horfa á leik. Hann er frábær náungi. Svona maður, dökkur á hörund, vill bara spila fótbolta og æfa, svo er það bara heyrnartól, vasadiskó, koddi og sæng."

„Hann kom frá Portúgal og hann hatar Val," sungu stuðningsmenn KR um Diogo á sínum tíma. Í dag spilar Diogo með Needham Market í sjöundu efstu deild á Englandi. Hinn 34 ára gamli Diogo ólst upp í Portúgal en hann á ættir að rekja til São Tomé and Príncipe og hann hefur leikið nokkra landsleiki með því landi undanfarin ár.

Sjá einnig:
Óli fékk kaldar kveðjur á Hrauninu - „Það var kominn tími til að þú kæmir hingað helvítis hálfvitinn þinn"
11 ára Albert skaut á pabba sinn - „Pabbi þú verður ekkert í liðinu í sumar"
Kristín fékk ekki að koma inn á - „Það er bara svo sorglegt þegar blind manneskja er betri en ég"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner