Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 12. júní 2021 16:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Einn af sendiherrum Íslands og verður að sýna hegðun eftir því
Icelandair
Eiður Smári á landsliðsæfingu.
Eiður Smári á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, ræða saman.
Eiður og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, ræða saman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Starfs Eiðs Smára Guðjohnsen hjá KSí er sagt hanga á bláþræði eftir að myndband af honum að létta af sér þvagi í miðbæ Reykjavíkur fór í dreifingu.

Í myndbandinu sést Eiður í nokkuð annarlegu ástandi.

„Frá KSÍ vegna umfjöllunar um aðstoðarþjálfara A landsliðs karla. Við vitum af málinu, erum að afla frekari upplýsinga og skoða næstu skref og munum upplýsa um framhaldið við fyrsta tækifæri," sagði í yfirlýsingu KSÍ vegna málsins.

„Þetta er hrikalega leiðinlegt fyrir alla. Eiður með Arnari er nýbúinn að taka við þessu landsliði. Eftir erfiða byrjun voru allir sammála um að þjálfarateymið hefði komið út sem sigurvegarar í þessum síðasta æfingaleikjaglugga," sagði Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolta.net.

„Það var upplyfting hjá landsliðinu í kringum þennan glugga en þetta er skelfilegt. Svona myndband er eitthvað sem allir leikmennirnir sjá líka. Þetta er afskaplega lítið land og það eru allir, og ömmur þeirra, með síma. Menn sem eru í svona valdastöðu sem þjálfarar þurfa að sýna ábyrgð og halda ákveðinni virðingu," sagði Tómas jafnframt.

„Þú ert að vinna undir merkjum Íslands og þú ert einn af sendiherrum Íslands út á við. Þá verðurðu að sýna hegðun eftir því," sagði Elvar Geir Magnússon.

Morgunblaðið sagði frá því að Eiður væri með tvo kosti frá Knattspyrnusambandinu; að fara í meðferð eða missa starfið.

„Ef þessar heimildir eru réttar, sem ég velkist ekki í vafa um, þá hefur þetta kannski verið áður til umfjöllunar hjá sambandinu. Fyrst þetta er orðið afarkostur," sagði Tómas og bætti við:

„Það er ekkert sem manneskjan elskar meira en breyskleiki sem er lagaður, og fólk sem finnur bót meina sinna. Hann er alveg nógu vinsæll fyrir, Eiður Smári Guðjohnsen sem knattspyrnumaður og þjóðhetja. Ef hann myndi rísa upp úr öskustónni í gegnum þennan storm og koma út sem sigurvegari hinum megin, þá yrði hann bara vinsælli fyrir vikið."

Eiður er að margra mati besti leikmaður í sögu Íslands en hann gerði garðinn frægan með bæði Chelsea og Barcelona.

Hann og Arnar Þór Viðarsson voru ráðnir þjálfarar A-landsliðs karla undir lok síðasta árs.

Enginn á að lenda í því að vera tekinn upp að pissa úti á djamminu
Albert Brynjar Ingason, leikmaður Kórdrengja í Lengjudeildinni, er með athyglisverðan punkt um málið sem hann birtir á Twitter. Tíst hans hefur fengið athygli og meira en 150 manns smellt á 'læk' við það þegar þessi frétt er skrifuð.

„Jájá, Eiður Smári á að vita betur í sinni stöðu en að vera míga á almannafæri... Eitthvað sem ég held að við karlmenn yfir höfuð erum alltof oft sekir um. En enginn á samt að lenda í því að vera tekinn upp að pissa úti á djamminu og því hent í dreifingu," skrifar Albert og bætir við:

„Ég meina... Til hvers?"

Hægt er að hlusta á allan útvarpsþáttinn hér að neðan.


Útvarpsþátturinn - EM með Gumma Ben og íslenski boltinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner