Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 12. september 2018 12:17
Elvar Geir Magnússon
Barcelona nýtti ekki tækifæri til að fá Asensio
Marco Asensio er þegar kominn með átta titla á ferilskrá sína hjá Real Madrid.
Marco Asensio er þegar kominn með átta titla á ferilskrá sína hjá Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Varnarmenn Króatíu réðu engan veginn við Marco Asensio þegar Spánn vann 6-0 sigur í Þjóðadeildinni í gær. Þessi 22 ára leikmaður hefur verið að taka flottum framförum á sínum ferli hjá Real Madrid.

En á skrifstofu Barcelona naga einhverjir sig í handabökin því fyrir fjórum árum virtist stefna í að Asensio færi í þeirra herbúðir. Börsungar náðu samkomulagi við Real Mallorca árið 2014 um kaupverðið á leikmanninum.

Asensio var byrjaður að skoða hús í Barcelona þegar úr viðræðum slitnaði. Barcelona vildi skipta niður greiðslunum (4,5 milljónum evra) en Real Mallorca vildi fá upphæðina í einni greiðslu. Þrjóskir Börsungar hættu við kaupin.

Asensio er að verða að stórstjörnu hjá Real Madrid og virðist ákveðinn í að taka við keflinu af Cristiano Ronaldo sem seldur var til Juventus.

Hann hefur leikið á vinstri kantinum og unnið þrjár vítaspyrnur í þremur deildarsigrum Real Madrid. Hann kemur með mikinn hraða í liðið og þó hann hafi ekki skorað í La Liga í upphafi tímabils þá er stutt í fyrsta markið.

Þess má geta að hann er skírður í höfuðið á Marco van Basten, hollensku goðsögninni. Móðir Asensio var hollensk en hún lést úr krabbameini 2011. Hún fór með syni sínum á allar æfingar og Asensio hefur sagt að öll mörk sín séu tileinkuð henni.

Í gær var hann aðalstjarnan í 6-0 sigrinum gegn Króatíu og skoraði annað mark leiksins. Hann tætti í sig vörn mótherjana hvað eftir annað og lagði upp þrjú af mörkunum sex.

Asensio er á sínu þriðja tímabili með Real Madrid og hann telur sig vera kominn með stöðugleikann sem þarf til að sýna stjörnuframmistöðu í hverri viku.

Stuðningsmenn Barcelona geta íhugað hvað hefði orðið ef þeirra félag hefði keypt Asensio 2014.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner