mið 12. september 2018 17:23
Elvar Geir Magnússon
Neymar segir dómara hafa sýnt óvirðingu með því að spjalda sig fyrir dýfu
Neymar skoraði eitt af mörkunum fimm í leiknum.
Neymar skoraði eitt af mörkunum fimm í leiknum.
Mynd: Getty Images
Brasilíski sóknarmaðurinn Neymar segir að dómarinn Jair Marrufo hafi sýnt sér óvirðingu með því að gefa sér gult spjald fyrir leikaraskap í 5-0 sigri gegn El Salvador.

Bandaríski dómarinn gaf Neymar áminningu rétt fyrir hálfleik en leikurinn fór fram á FedEx vellinum í Washington. Þessi sóknarmaður PSG hafði þá fallið í teignum.

Neymar segist geta sætt sig við að hafa ekki fengið vítaspyrnu en fannst það algjör óþarfi að lyfta upp gula spjaldinu. Atvikið má sjá neðar í fréttinni.

„Ég veit ekki hvað ég þarf að gera. Það er ekki möguleiki að ég sætti mig við að hafa þetta orðspor. Þessu þarf að ljúka. En þetta snýr ekki að mér, þess vegna mótmælti ég þessu ekki. Ég hélt áfram að einbeita mér að fótboltanum," segir Neymar sem hefur það orðspor á sér að vera fljótur að taka dýfur.

„Þetta er óvirðing. Ekki bara gagnvart mér heldur liðsfélögum mínum líka. Það er snúið að spila á gulu spjaldi. Þessi gaur kemur hingað og dæmir leik hjá brasilíska landsliðinu og gerir þetta... mér finnst það ekki rétt. Þó hann dæmi ekki víti þá er það í lagi en spjaldið er óþarfi."



Sjá einnig:
Neymar heldur áfram að dýfa sér - „Horfðir þú ekki á HM?"
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner