Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mið 12. september 2018 15:00
Elvar Geir Magnússon
Skoski Messi nú bara kallaður Ryan Gauld
Ryan Gauld í leik með U19 landsliði Skotlands á sínum tíma.
Ryan Gauld í leik með U19 landsliði Skotlands á sínum tíma.
Mynd: Getty Images
Það er til rosalega langur listi af barnastjörnum í boltanum sem ekki hafa náð að taka næsta skref. Hinn 22 ára Ryan Gauld er á þeim lista en hann fékk mikla fjölmiðlaathygli ungur að árum og var kallaður hinn „skoski Messi".

Gauld lék með Dundee United í maí 2012, þegar hann var sextán ára gamall. Tveimur árum síðar skoraði hann átta mörk fyrir liðið í efstu deild Skotlands og stærstu félög Evrópu sýndu honum áhuga.

Manchester United var meðal félaga sem hafði áhuga en Gauld var keyptur til Sporting í Lissabon.

Marco Silva, nú stjóri Everton, hélt um stjórnartaumana hjá Sporting og var hrifinn af Gauld sem var þá orðinn 19 ára. Eftir að hafa byrjað í varaliðinu meðan hann var að venjast aðstæðum fékk hann tækifæri með aðalliðinu. Hann skoraði tvö mörk og átti stoðsendingu í fimm leikjum með aðalliðinu og framtíð hans talin björt.

En eftir að Silva fór og tók við Olympiacos í Grikklandi tók ferill Gauld skref til baka. Nýr þjálfari Sporting, Jorge Jesus, gaf Skotanum ekki tækifæri og annað tímabil með varaliðinu tók við.

Sumarið 2016 var Gauld lánaður til Vitoria Setubal og lék fimm leiki í portúgölsku úrvalsdeildinni áður en hann snéri aftur til Sporting til að leika með varaliðinu á ný.

Gauld er enn sammingsbundinn Sporting (til 2020) en er ekki í myndinni hjá félaginu og er sem stendur á lánssamningi hjá Farense í portúgölsku B-deildinni. Hann verður 23 ára um miðjan desember.

Í viðtali sem Gauld fór í fyrr á þessu ári sagðist hann enn vera að bíða eftir sínu tækifæri.

„Þegar ég skrifaði undir vissi ég að þetta myndi snúast um þolinmæði. Ég var búinn undir það að hlutirnir myndu ekki gerast strax. Mér finnst ég betri leikmaður og þroskaðri einstaklingur," sagði Gauld sem heldur greinilega í jákvæðnina.

Gauld var í einhverju slúðurblaðinu nýlega orðaður við Rangers í Glasgow en Steven Gerrard, stjóri Rangers, blés á þær sögusagnir.

Daily Mail fjallaði um Gauld og má sjá umfjöllunina með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner