mán 12. nóvember 2018 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mbappe býst ekki við að Ronaldo eða Messi hljóti Gullknöttinn
Mynd: FIFA
Franska ungstirnið Kylian Mbappe segist ekki búast við því að Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi hljóti Gullknöttinn í ár.

Landsliðsfyrirliðar og þjálfarar eru búnir að kjósa um bestu leikmenn og þjálfara heims og er verið að telja atkvæðin fyrir verðlaunaafhendinguna sem verður haldin í byrjun desember.

Franski fréttamaðurinn Eric Mamruth greindi frá því í gær að búið væri að telja helming atkvæða og að Luka Modric væri atkvæðamestur, Raphael Varane í öðru sæti og Mbappe í því þriðja.

„Ég held ekki að Messi eða Ronaldo vinni Gullknöttinn í ár út af heimsmeistaramótinu," sagði Mbappe.

„HM gengur fyrir í þessari atkvæðagjöf. Ef það væri verið að velja leikmennina sem standa sig best þá væru þeir aftur að berjast um þessa nafnbót. Það var enginn sem skoraði jafn reglulega og þeir."

Mbappe vann heimsmeistaramótið með Frakklandi rétt eins og Varane. Modric leiddi Króatíu til dáða og endaði liðið í öðru sæti.

Mbappe hefur farið feykilega vel af stað með PSG á nýju tímabili og er kominn með 11 mörk í 9 deildarleikjum.
Athugasemdir
banner