Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 13. janúar 2019 20:00
Magnús Már Einarsson
Doha í Katar
Erik Hamren um stöðu landsliðsins: Meiðslin hafa verið brjálæði
Icelandair
Erik Hamren er í leit að sínum fyrsta sigri sem landsliðsþjálfari.  Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn hjá honum.
Erik Hamren er í leit að sínum fyrsta sigri sem landsliðsþjálfari. Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn hjá honum.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Erik byrjaði á mjög erfiðum leikjum með íslenska liðið í A-deild Þjóðadeildarinnar.
Erik byrjaði á mjög erfiðum leikjum með íslenska liðið í A-deild Þjóðadeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik fer yfir málin á æfingu íslenska landsliðsins í Katar.
Erik fer yfir málin á æfingu íslenska landsliðsins í Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
„Það sem hefur komið mest á óvart í starfinu hingað til og pirrað mig mest eru meiðslin," sagði Erik Hamren þegar Fótbolti.net settist niður með honum í Katar í vikunni og ræddi fyrstu fimm mánuði hans í starfi landsliðsþjálfara Íslands.

Ísland tapaði öllum fjórum leikjum sínum í Þjóðadeildinni í haust en meiðsli settu stórt strik í reikninginn þar. Erik er svekktur að hafa ekki náð að stilla upp sínu sterkasta liði í neinum leik áður en undankeppni EM hefst í mars.

„Ég hef aldrei lent í jafnmiklum meiðslum og í þessum sex leikjum í haust. Þetta er brjálæði," sagði Erik ákveðinn.

„Eftir lokakeppni, eins og HM, lenda landslið oft í meiðslum en þetta var algjört brjálæði hjá okkur. Við vorum án sex leikmanna í byrjunarliðinu í fyrsta leik í Þjóðadeildinni frá því á HM. Í síðasta leik í Þjóðadeidinni vantaði sjö í byrjunarliðið síðan á HM. Við höfum spilað sjö leiki og ég hef ekki í einum þeirra átt möguleika á að stilla upp liðinu sem ég vildi stilla upp."

„Ég reyni sem þjálfari að horfa á jákvæðu hliðarnar og ég hef náð að skoða fleiri leikmenn en ég bjóst við í fyrstu sex leikjunum. Við höfum hins vegar ekki nað að spila liðið saman og undankeppnin hefst í mars. Ég vona að meiðslastaðan verði eðlileg þegar undankeppnin hefst því ég mikla trú á að við getum komist áfram. Hins vegar ef meiðslastaðan verður áfram svona þá verður þetta mjög erfitt."


Vonar að 2019 verði eðlilegt ár í meiðslum
Auk fjögurra tapa í Þjóðadeildinni gerði Ísland 2-2 jafntefli við Frakka í vináttuleik í október og 2-2 jafntefli við Katar í nóvember. Á föstudaginn gerði Ísland síðan 2-2 jafntefli við Svíþjóð í Katar. Erik er því ennþá í leit að sínum fyrsta sigri sem þjálfari íslenska landsliðsins.

„Sem þjálfari er mikilvægt að vinna til að ná sigurtilfinningunni í liðið. Það er mikilvægt. En við þurfum líka að vera raunsæ. Við höfum mætt mjög erfiðum liðum og verið í meiðslavandræðum. Eftir stórslysið gegn Sviss á útivelli í fyrsta leik höfum við bætt frammistöðuna."

„Ef þú horfir á fyrri leikinn gegn Belgíu og síðan þann síðari, þar sem vantaði sjö leikmenn síðan í byrjunarliðinu gegn Argentínu á HM, þá tel ég að við höfum bætt okkur. Það er góð tilfinning. Ég held að leikmenn finni þetta líka. Ef staðan hefði verið eðlileg þá hefðum við getað unnið einhverja af þessum leikjum."

„Við hefðum átt að ná betri úrslitum gegn Sviss heima. Sérstaklega miðað við lokakaflann hjá okkur þar. Ég vona að 2019 verði eðlilegt ár þegar kemur að meiðslum og gott ár þegar kemur að úrslitum. Ef við náum ekki góðum úrslitum þá náum við ekki árangri."


Gefur sér sólarhring eftir leiki
Erik segist sjálfur ekki hafa svekkt sig of lengi á árangrinum heldur strax byrjað að horfa á næstu verkefni.

„Ég vil ekki tapa, það er erfitt. Þú verður hins vegar að komst yfir það. Ég átti erfitt með það í byrjun þjálfaraferilsins. Ef við töpuðum tók það of langan tíma að komast yfir það. Núna gef ég mér og leikmönnunum 24 klukkutíma til að fagna sigri eða svekkja sig á tapi. Síðan þarf að fara að hugsa um næsta leik. Við mættum þrisvar liði sem var númer eitt á heimslistanum og síðan mættum við Sviss tvívegis. Þeir unnu riðlilinn í Þjóðadeildinni. Þetta voru fimm mjög erfiðir leikir og ofan á það bættist erfið staða með meiðslin."

Vill sjá leikmenn halda einbeitingu
Aðspurður út í hvað hann vilji helst sjá fara betur í leik íslenska liðsins nefnir Erik að liðið megi ekki missa einbeitinguna og tökin á leikjum í stuttan kafla eins og gerðist í Þjoðadeildinni.

„Við höfum átt kafla í leikjum þar sem við gerum mistök og missum einbeitinguna aðeins. Ég veit ekki hvað á að kalla það. Ég tek fyrsta leikinn til hliðar því hann var sérstök saga. Ef þú horfir á 3-0 tapið gegn Belgum heima þá var leikurinn allt í lagi í 90 mínútur en þeir skoruðu þrjú mörk. Við hefðum getað gert betur þó að þeir séu góðir."

„Það eru stuttir kaflar í leikjum þar sem okkur er refsað. Það sama var uppi á teningnum gegn Sviss heima. Þetta var jafn leikur og við áttum fleiri marktilraunir en þeir að mig minnir. Við hefðum hins vegar getað gert betur. Í Belgíu áttum við góðan leik með óreynt lið. Við vörðumst mikið en úrslitin hefðu getað verið betri. Við þurfum að bæta okkur til að ná úrslitum gegn þessum góðu liðum,"
sagði Erik við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner