sun 13. janúar 2019 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Höfum ekki efni á því að hafa Özil ekki einu sinni á bekknum"
Mynd: Getty Images
Það kom á óvart að sjá ekki Mesut Özil í leikmannahópi Arsenal í 1-0 tapinu gegn West Ham í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Özil hafði æft alla vikuna en var samt sem áður ekki í leikmannahópnum.

„Ég valdi leikmennina sem ég taldi henta best fyrir þennan leik," sagði Unai Emery, stjóri Arsenal, eftir leikinn. „Við getum unnið með hann í liðinu, við getum tapað með hann í liðinu. Úrslitin ráðast ekki á einum leikmanni."

Özil hefur verið inn og út úr liðinu á þessu tímabili. Hann hefur nokkuð verið að glíma við meiðsli, en í nóvember spilaði hann ekki við Bournemouth af taktískum ástæðum.

Í desember var talað um það að Özil væri mögulega á förum frá Arsenal í þessum mánuði, en umboðsmaður hans þvertók fyrir það.

Ian Wright, fyrrum leikmaður Arsenal, var mjög ósáttur við ákvörðun Emery.

„Við höfum ekki efni á því að hafa mögulega launahæsta leikmann í sögu Arsenal ekki einu sinni á bekknum," sagði Wright í Match of the Day á BBC.

„Eftir 60, 70 mínútur vorum við ekki að skapa neitt. Arsenal er ekki í stöðu til að skila Özil fyrir utan leikmannahópinn."

Arsenal á næst leik gegn Chelsea 19. janúar. Verður Özil mættur aftur í liðið þá?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner