þri 13. apríl 2021 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Neymar lofsamar Mbappe: Hann er gulldrengurinn okkar
Neymar og Kylian Mbappe eru góðir vinir
Neymar og Kylian Mbappe eru góðir vinir
Mynd: Getty Images
Brasilíski sóknarmaðurinn Neymar hefur lært mikið af samherja sínum, Kylian Mbappe, en hann lofsamar franska framherjann í viðtali við France Football.

Neymar og Mbappe hafa leitt einhverja dýrustu framlínu heims síðustu ár en saman hafa þeir skorað 185 mörk fyrir félagið á fjórum tímabilum.

Þeir eru báðir í samningaviðræðum við PSG en Neymar mun líklega skrifa undir framlengingu á næstu vikum á meðan Mbappe er að skoða sín mál. Samningar þeirra gilda til júní 2022.

Neymar er hrifinn af Mbappe. Franski framherjinn er gulldrengurinn í PSG og hefur Neymar lært mikið af honum.

„Hann kenndi mér hvernig maður á að vera franskur. Hann útskýrði franska hugarfarið fyrir mér," sagði Neymar.

„Ég á honum mikið að þakka fyrir það hvernig ég hef aðlagast franska boltanum og það er ástæðan fyrir því að ég er ánægður hér."

„Það snerti mig hvernig maður hann er. Hann er hugulsamur, alltaf ánægður, kurteis og góður við alla. Hann er falleg manneskja og þess vegna hefur okkur samið svona vel frá fyrsta degi."

„Ég hef fengið tækifærið til að horfa á hann æfa og fylgjast með hraðanum, tækninni sem hann notar þegar hann rekur boltann, gáfu og auðmýkt hans að halda áfram að þróast. Ég sagði við sjálfan mig að hann væri gulldrengurinn okkar."

„Það að vera fljótur þýðir ekkert. Þú þarft að vera sniðugur hvernig þú notar hraðann og Kylian veit hvernig maður gerir það. Hann er ekki bara mjög sniðugur og fljótur heldur er hann líka búinn að fullkomna þann eiginleika að rekja boltann,"
sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner