banner
   fim 13. maí 2021 20:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hólmar Örn skoraði í Íslendingaslag - Ari og Samúel meiddust
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari Freyr Skúlason.
Ari Freyr Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmiðvörðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson var á skotskónum fyrir Rosenborg í Íslendingaslag gegn Viking í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Hólmar Örn skoraði þriðja mark Rosenborg eftir tæpan stundarfjórðung í seinni hálfleikurinn. Leikurinn endaði með 5-0 sigri Rosenborg sem er núna með fjögur stig í öðru sæti deildarinnar. Samúel Kári Friðjónsson, miðjumaður Viking, meiddist í leiknum og þurfti að fara af velli eftir 27 mínútur.

Bakvörðurinn Adam Örn Arnarson lék ekki með Tromsö þegar liðið gerði 3-3 jafntefli við Molde.

Ari Freyr borinn af velli
Landsliðsmaðurinn Ari Freyr Skúlason var borinn af velli þegar Norrköping gerði jafntefli gegn Degerfors í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Ari Freyr og Ísak Bergmann Jóhannesson voru báðir í byrjunarliði Norrköping en Ari meiddist á 74. mínútu. Vonandi er þetta ekki eins alvarlegt og það leit út fyrir að vera. Ari Freyr og Hörður Björgvin Magnússon, vinstri bakverðir íslenska landsliðsins, eru báðir meiddir núna og spurning hvort við sjáum ný andlit í vináttulandsleikjum í sumar.

Leikurinn endaði 1-1 og er Norrköping í öðru sæti deildarinnar með 11 stig.

Hallbera spilaði í stóru tapi
Í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð spilaði Hallbera Guðný Gísladóttir allan leikinn þegar AIK tapaði stórt gegn Vittsjö. Leikurinn endaði 4-0 fyrir Vittsjö en AIK er í sjöunda sæti deildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki.

Í hinum leik kvöldsins í Damallsvenskan vann Linköping 4-3 sigur á Piteå. Hlín Eiríksdóttir lék ekki með Piteå, sem er í tíunda sæti deildarinnar, vegna meiðsla.
Athugasemdir
banner
banner
banner