mið 13. júní 2018 22:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þetta er danski sóknarmaðurinn sem er á leið í Breiðablik
Thomas Mikkelsen.
Thomas Mikkelsen.
Mynd: Getty Images
Danski sóknarmaðurinn Thomas Mikkelsen er við það að ganga í raðir Breiðabliks. Þetta staðfesti Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir sigur á Fylki í Pepsi-deildinni í kvöld.

„Hann er mættur og horfði á leikinn í kvöld. Hann er sem sagt að semja við okkur til tveggja ára. Hann heitir Thomas Mikkelsen og er búinn að spila í þrjúr ár í Skotlandi og er flottur leikmaður sem mun styrkja okkur verulega," sagði Gústi eftir leikinn.

Thomas er 28 ára gamall framherji sem steig sín fyrstu skref í meistaraflokki hjá Sydvest. Hann skoraði þar 11 mörk í 14 leikjum og samdi í kjölfarið við Velje sem varð síðar Velje Kolding.

Eftir gott ár með Fredericia gekk hann í raðir danska úrvalsdeildarfélagsins OB. Hann náði ekki að festa sig almennilega í sessi hjá OB og var lánaður til IFK Göteborg og Velje BK þaðan.

Hann var lánaður til Dundee United í skosku 1. deildinni í fyrra og var í kjölfarið keyptur til Ross County í skosku úrvalsdeildinni. Hann var aftur lánaður til Dundee í janúar síðastliðinum og spilaði með liðinu út leiktíðina sem kláraðist í maí.

Eftir síðasta tímabil var hann leystur undan samningi við Ross County og stefnir allt í að hann skrifi núna undir hjá Breiðabliki.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner