banner
   fös 13. september 2019 13:35
Elvar Geir Magnússon
Leiðin í bikarúrslitin - Umtöluð vítaspyrna og endurkomur
Erlingur Agnarsson skoraði sigurmark í Vestmannaeyjum.
Erlingur Agnarsson skoraði sigurmark í Vestmannaeyjum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Guðmundur Andri Tryggvason.
Guðmundur Andri Tryggvason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH lagði ÍA.
FH lagði ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Víkingur og FH eigast við í sjálfum bikarúrslitaleiknum á Laugardalsvelli á morgun. En hvernig hefur leið liðanna í þennan stórleik verið? Skoðum hana.

LEIÐ VÍKINGA:

Hetjuleg barátta heimamanna á Ásvöllum
„Hetjuleg barátta KÁ skilar þeim ekki meira en 2-1 tapi gegn Víkingi," skrifaði Arnar Daði Arnarsson, fréttamaður Fótbolta.net, um 2-1 útisigur Víkings gegn 4. deildarliðinu KÁ í 32-liða úrslitum.

Halldór Jón Sigurður Þórðarson og Nikolaj Hansen komu Víkingum í 2-0 á Ásvöllum en heimamenn minnkuðu muninn í lokin. Smelltu hér til að skoða skýrslu leiksins.

Umtöluð vítaspyrna í Laugardal
Víkingur Reykjavík sló KA út í 16-liða úrslitum, en úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni. Leikurinn var heimaleikur Víkinga en leikinn á gervigrasi Þróttar þar sem Víkingsvöllur var ekki tilbúinn. Nikolaj Hansen kom Víkingum yfir í venjulegum leiktíma en KA jafnaði 1-1. Þannig var staðan eftir 120 mínútna leik og réðust úrslit á vítapunktinum.

Staðan var jöfn fyrir fimmtu umferð vítaspyrnukeppninnar en þá tók Almarr Ormarsson víti fyrir KA. Boltinn fór í slá og niður en flestir áhorfendur töldu að boltinn hefði farið innfyrir línuna. Aðstoðardómarinn Þórður Arnar Árnason dæmdi þó ekki mark en hér má sjá atvikið. Dómnum var ekki haggað og Sölvi Geir Ottesen skaut Víkingi áfram í 8-liða úrslit með næstu spyrnu.

Víkingar sýndu rosalegan karakter í Eyjum
Eftir að hafa lent 2-0 undir gegn ÍBV í 8-liða úrslitum á Hásteinsvelli sýndi Víkingsliðið gríðarlegan karakter. Sölvi Geir Ottesen, Nikolaj Hansen og Erlingur Agnarsson skoruðu og úrslitin 2-3. Sigurmarkið kom á 84. mínútu.

Smelltu hér til að lesa skýrslu leiksins.

Læti eftir leik gegn Breiðabliki
Víkingar unnu 3-1 sigur gegn Breiðabliki í undanúrslitaleik á Víkingsvelli um miðjan ágúst. Leikurinn var stórskemmtilegur, Blikar komust yfir en Óttar Magnús Karlsson, Nikolaj Hansen og Guðmundur Andri Tryggvason skoruðu mörk Víkinga sem fögnuðu af innlifun í leikslok.

Mönnum var heitt í hamsi í leiknum og eftir hann eins og lesa má um hérna.

LEIÐ FH-INGA:

Íslandsmeistararnir slegnir út
Það var boðið upp á stórleik strax í 32-liða úrslitunum. FH-ingar heimsóttu Íslandsmeistara Vals og spörkuðu þeim úr leik. Jákup Thomsen og Atli Guðnason komu FH-ingum tveimur mörkum yfir í leiknum, Valur náði að minnka muninn í 1-2 en komst ekki lengra.

„Voru betri eiginlega allan leikinn og manni fannst þeir hafa góð tök á forystunni allan tímann," skrifaði Egill Sigfússon, fréttamaður Fótbolta.net, um frammistöðu FH. Smelltu hér til að skoða skýrsluna úr leiknum.

Fyrsta liðið til að vinna ÍA
FH varð fyrsta liðið til að vinna ÍA í sumar. Í lok maí vann FH 2-1 sigur gegn ÍA í 16-liða úrslitum. Steven Lennon og Jákup Thomsen komu FH-ingum í 2-0 í leiknum.

„FH-ingar virðast hafa lært ýmislegt eftir leik þessara liða í deildinni. Voru þolinmóðir og vörðust gríðarlega vel. Gott fyrir þá að eiga Steven Lennon á bekknum sem að kom þeim á bragðið," skrifaði Kristófer jónsson, fréttaritari Fótbolta.net, en hér má lesa skýrsluna.

FH-ingar í sjöunda himni
FH tók Grindavík í kennslustund með 7-1 sigri í 8-liða úrslitum. Steven Lennon skoraði þrennu og var valinn maður leiksins. Hjörtur Logi Valgarðsson, Halldór Orri Björnsson, Pétur Viðarsson og Brynjar Ásgeir Guðmundsson komust einnig á blað.

FH-ingar völtuðu yfir Grindvíkinga og voru í raun óheppnir að gera ekki fleiri mörk en hér má lesa skýrsluna.

Risaslagur í undanúrslitum
FH-ingar hafa farið ansi erfiða leik í bikarnum og í undanúrslitum vannst 3-1 sigur gegn KR, toppliði Pepsi Max-deildarinnar, í kaflaskiptum leik. Þó KR-ingar hafi verið meira með boltann í leiknum þá var mikið bit í sóknaraðgerðum FH. Brandur Olsen var í banastuði á meðan lykilmenn KR náðu ekki að stíga upp.

Steven Lennon kom FH yfir úr vítaspyrnu, KR jafnaði en Brandur og Morten Beck voru á skotskónum. Smelltu hér til að skoða skýrsluna.
Athugasemdir
banner
banner
banner