Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   þri 13. nóvember 2018 15:30
Magnús Már Einarsson
Guðjón Lýðs: Held við getum farið að stríða stóru strákunum
Ætlar að hjálpa KA að byggja upp
Guðjón í leik með Val síðastliðið sumar.
Guðjón í leik með Val síðastliðið sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Mér líst vel á það sem er í gangi. Það eru margir ungir strákar þarna og orka í þessu hjá þeim. Það er spennandi að taka þátt í að byggja alvöru félag," sagði miðjumaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson við Fótbolta.net í dag en hann skrifaði í gær undir þriggja ára samning við KA.

Guðjón hefur orðið Íslandsmeistari með Val undanfarin tvö ár en samningur hans þar rann út í síðasta mánuði. Nokkur félög vildu fá Guðjón í sínar raðir en hann valdi KA á endanum.

„Óli Stefán (Flóventsson, þjálfari KA), seldi mér þetta og ég ákvað þetta eftir spjall við hann. Sævar (Pétursson, framkvæmdastjóri KA), hefur líka verið á eftir mér í mörg ár og það var kominn tími á að fara norður," sagði Guðjón en hvað var það sem Óli Stefán sagði til að landa samningum?

„Hann vill halda boltanum innan liðs og það hentar mínum leikstíl. Hann er með ákveðið hlutverk í huga sem ég held að muni henta mér vel. Ég er komin til að hjálpa til og vonandi nýtist maður til góðra verka."

KA hefur endað í 7. sæti í Pepsi-deildinni tvö ár í röð en Guðjón telur að liðið geti tekið næsta skref.

„Ég vona að það komi fleiri tilkynningar á næstu dögum og þá held ég að við getum farið að stríða þessum stóru köllum."

Guðjón er með taugar norður í land og hefur alltaf kunnað vel við sig þar.

„Ég er ættaður fyrir norðan. Systir mömmu býr þarna og fleiri frændur og frænkur. Ég bjó sjálfur á Sauðárkróki og Blönduósi þar til ég var 9 ára. Það er rosa gott að vera fyrir norðan þá þarf maður ekki að vera í umferðinni í bænum, hún er hundleiðinleg," sagði Guðjón léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner