fim 14. mars 2019 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate óttast að gott gengi félagsliða komi niður á landsliðinu
Mynd: Getty Images
Gareth Southgate landsliðsþjálfari Englendinga segist óttast að gott gengi enskra félagsliða í Meistaradeildinni komi niður á árangri landsliðsins í Þjóðadeildinni næsta sumar.

Southgate er vel liðinn á Englandi eftir þann góða árangur sem hann hefur náð með landsliðinu. England komst til að mynda alla leið í undanúrslit á HM í fyrra og er komið í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar.

„Þetta gæti dottið í algjöra óreiðu því við eigum leik í Þjóðadeildinni aðeins nokkrum dögum eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar," sagði Southgate á fréttamannafundi eftir að hann tilkynnti landsliðshópinn fyrir leikina gegn Tékklandi og Svartfjallalandi í undankeppni EM.

„Segjum sem svo að tvö ensk félög komist í úrslitaleikinn. Við myndum ekki sjá enska leikmenn liðanna fyrr en, í besta falli, á mánudegi. Það er þremur dögum áður en við mætum til leiks í úrslitakeppnina á fimmtudeginum.

„Við erum búnir að afreka að komast í undanúrslitin, það væri leiðinlegt að geta ekki reitt sig á sama hóp fyrir úrslitakeppnina. Þegar maður skoðar allt tilfinningaflæðið sem fylgir úrslitaleik Meistaradeildar - eru leikmenn sem keppa úrslitaleikinn andlega hæfir til að mæta í landsleik nokkrum dögum síðar? Það er ekki raunhæft."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner