fim 14. júní 2018 08:48
Elvar Geir Magnússon
„Kom með punkta varðandi Argentínu sem er gott að setja í hausinn á sér"
Icelandair
Freyr ásamt Roland Andersson sem einnig er í leikgreinandahlutverki fyrir íslenska landsliðið.
Freyr ásamt Roland Andersson sem einnig er í leikgreinandahlutverki fyrir íslenska landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson er í hlutverki leikgreinanda hjá íslenska landsliðinu og hann hefur skoðað argentínska liðið gaumgæfilega. Á fundi í gær fór hann yfir liðið fyrir framan strákana okkar.

„Hann er alltaf jafn flottur og kemur með ógeðslega góða punkta og glærur fyrir okkur að sjá. Hann fer út í smæstu atriði varðandi ákveðna þætti Argentínuliðsins. Hann kom með punkta sem er gott að setja í hausinn á sér," segir Jón Daði Böðvarsson, sóknarmaður Íslands.

Þegar dregið var í riðla í desember sendi Freysi SMS skilaboð í kímni til Heimis þar sem hann sagði ráðlegt að dekka leikmann númer tíu í argentínska liðinu. Fundurinn í gær var öllu ítarlegri en Hörður Björgvin Magnússon sagði að hann hafi verið um hálftími að lengd.

„Freysi hefur gefið okkur góðar upplýsingar um Argentínu. Þetta var góður hálftíma fundur í gær og enginn sofnaði. Hann er skemmtilegur og góður í þessu og heldur öllum vakandi. Það var skemmtilegt að sjá mögulegt byrjunarlið hjá þeim og fræðast meira um leikmenn þeirra," segir Hörður.

Jón Daði segir að íslenska liðið hafi fulla trú á því að fá eitthvað út úr komandi verkefni en síðar í dag mun hópurinn fljúga yfir til Moskvu.

„Er ekki Ísland þannig, þessi litla þjóð, að við trúum á öll þau verkefni sem við förum í? Argentína er ein besta fótboltaþjóð í heimi og þetta verður erfiður leikur en við erum klárir í það," segir Jón Daði Böðvarsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner