Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 14. júní 2022 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Helena Ólafs spáir í níundu umferð Bestu deildar kvenna
Helena Ólafsdóttir.
Helena Ólafsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brenna Lovera.
Brenna Lovera.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik og Valur eiga erfiða leiki fyrir höndum í kvöld.
Breiðablik og Valur eiga erfiða leiki fyrir höndum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Smári Haraldsson gerði sér lítið fyrir og var með fjóra rétta af fimm þegar hann spáði í áttundu umferð Bestu deildar kvenna. Hann var meðal annars með einn hárréttann þar sem hann spáði Þrótti 1-3 sigri gegn KR eins og raunin varð.

Helena Ólafsdóttir, fyrrum landsliðsþjálfari, tók að sér það verkefni að spá í níundu umferðina sem verður leikin í heild sinni í kvöld. Hún hefur síðustu ár gert það gott í sjónvarpi og stýrir núna Bestu deildar mörkunum á Stöð 2 Sport.

„Næst síðasta umferð fyrir hlé og margar spennandi viðureignir," segir Helena.

Afturelding 1 - 2 ÍBV (18 í kvöld)
Reikna með að ÍBV taki sigur í dag. Þær hafa komið mér á óvart með skipulögðum leik og skynsömum, og eru greinilega vel þjálfaðar. Staða þeirra í töflunni hefur komið mörgum á óvart og fari þær með sigur í dag geta þær farið að gæla við að keppa við liðin á toppnum. Afturelding hefur verið í miklum vandræðum með mannskapinn þar sem meiðsli hafa sett mikinn svip á liðið og maður hefur á tilfinningunni að sjálfstraustið í liðinu sé lítið. Þær munu þó bíta frá sér og - hafa gefið öllum liðum leik - en ÍBV liðinu líður vel og þess vegna á ég von á sigri hjá þeim. Eina sem ég velti fyrir mér eru meiðslin hennar Guðnýjar, hvaða áhrif það gæti haft; við höfum ekki séð Lavinia Elisabeta Boanda spila en það verður spennandi að fylgjast með henni í kvöld.

Þór/KA 3 - 1 KR (18 í kvöld)
Því miður fyrir KR þá held ég að þær séu ekki að fara að sækja sigur norður. Þór/KA hefur verið í vandræðum en þær hafa staðið sig vel á heimavelli og á því verður engin breyting í dag. Ef þær ætla að halda í við hin sex liðin fyrir ofan sig þá þurfa þær nauðsynlega sigur en ég geri ráð fyrir að þær fái á sig mark enda hafa þær verið í vandræðum með varnarleik sinn. Þær skora hins vegar alltaf og eru með leikmenn eins og Söndru Maríu og Huldu Ósk sem brjóta upp leiki. Reikna með að Tiffany spili en hún missti af síðasta leik vegna meiðsla og það skiptir máli því hún hefur komið einstaklega vel inn í lið Þórs/KA á þessu tímabili.

Keflavík 0 - 2 Stjarnan (19:15 í kvöld)
Stjarnan hefur verið á flugi og mun vera það áfram. Held að þær muni varla hvernig er að tapa leik enda hafa þær unnið síðustu fjóra leiki sína eftir að hafa átt erfiða leiki gegn Val og Breiðablik. Þær vita hvað er undir því liðið sem er á toppnum Valur á leik gegn Selfossi og gæti tapað stigum þar. Það gæti sett Stjörnuna í góða stöðu ef þær vinna í Keflavík og þær vilja ekki klikka á sínum leik. Keflavík sem byrjaði þetta mót að krafti mun að ég held ekki komast á sigurbraut í dag.

Selfoss 1 - 1 Valur (19:15 í kvöld)
Hörkuleikur á Selfossi og ég á vonast eftir mörgum á völlinn. Það er alltaf stemning á Selfossi og mikill áhugi á fótboltanum þar. Þetta verður jafn og spennandi leikur en lokaður enda varnir beggja liða sterkar. Brenna er ólíkindartól og mun koma Selfoss liðinu yfir en seigla Valskvenna og reynsla mun sjá til þess að þær fara með stig heim. Gæti trúað að annar hafsentinn, Mist eða Arna Sif, sjái um að koma boltanum í netið áður en flautað verður til leiksloka.

Þróttur 1 - 2 Breiðablik (20:15 í kvöld)
Liðin í þriðja og fjórða sætinu að mætast þar sem Þróttur er með 16 stig og Breiðablik 15. Blikar, sem er alltaf spáð í einu af tveimur efstu sætunum, verða hreinlega að vinna þennan leik til að fylgja Valskonum eftir. Ég veit hins vegar að Þróttarar hafa metnað og vilja bæta sinn árangur á hverju ári. Það verður spenna í þessum leik en ég á frekar von á útisigri. Birta og Hildur Antons munu komast á blað en Þróttur mun minnka muninn og kæmi mér ekki á óvart að Murphy myndi minnka muninn í eitt mark rétt fyrir leikslok; lokamínúturnar verða æsispennandi en Blikasigur verður það.

Fyrri spámenn:
Óskar Smári Haraldsson (4 réttir)
Cecilía Rán Rúnarsdóttir (3 réttir)
Heimavöllurinn (3 réttir)
Hlín Eiríksdóttir (2 réttir)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner