lau 14. júlí 2018 15:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mikil reiði hjá Manchester City vegna Jorginho
Mynd: Getty Images
Manchester City mun ekki stunda oftar viðskipti við Napoli. Þetta herma heimildir ESPN.

Ítalski miðjumaðurinn Jorginho fór frá Napoli til Chelsea en félagaskiptin voru staðfest í dag. Jorginho skrifaði undir fimm ára samning við Lundúnaliðið.

Hann var sterklega orðaður við Man City fyrr í sumar og virtist flest benda til þess að hann væri á leið þangað áður en Chelsea kom inn í dæmið á síðustu stundu.

Hjá City eru menn ekki sáttir með eiganda Napoli, Aurelio De Laurentiis, en City-menn telja að De Laurentiis hafi neytt Jorginho til að fara til Chelsea.

Jorginho vildi fara frá Napoli og samkvæmt ónefndum heimildarmanni ESPN þá vildi hann frekar fara til Manchester og semja við Englandsmeistaranna. De Laurentiis er hins vegar sagður hafa hótað honum því hann yrði áfram hjá Napoli ef hann myndi ekki ganga í raðir Chelsea.

Fréttamiðlar á Englandi segja að tilboðið frá Chelsea hafi einnig falist í því að þeir myndu greiða 7 milljónir punda fyrir knattspyrnustjórann Maurizio Sarri.

Sarri var ráðinn til Chelsea í morgun en De Laurentiis greip tækifærið að fá borgað fyrir Sarri. Hann er þess vegna talinn hafa neytt Jorginho að velja Chelsea, til mikillar reiði Manchester City.

Jorginho er fyrsti leikmaðurinn sem Chelsea fær í sumar og fyrsti leikmaðurinn sem Maurizio Sarri fær til félagsins. Sarri og Jorginho unnu saman hjá Napoli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner