mið 14. ágúst 2019 12:00
Arnar Daði Arnarsson
Kristján Flóki: Alltaf gaman að kljást við Guðmann og Pétur
Kristján Flóki.
Kristján Flóki.
Mynd: KR
Kristján Flóki í leik með FH sumarið 2017.
Kristján Flóki í leik með FH sumarið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH og KR eigast við í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í Kaplakrikanum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18:00.

KR-ingurinn, Kristján Flóki Finnbogason gekk í raðir félagsins fyrr í sumar frá Start í Noregi en hann er uppalinn í FH og hafði einungis leikið með FH hér á landi áður en hann lék sinn fyrsta leik með KR í byrjun mánaðarins.

„Þetta er risastór leikur í kvöld en hann er ekkert stærri fyrir mig heldur aðra leikmenn," sagði Kristján Flóki sem segist ekki vera farinn að finna fyrir meiri spennu fyrir leiknum í kvöld.

„Eina sem maður hefur heyrt er bara umtalið um leikinn að þetta verði jafn og spennandi leikur."

KR-ingar töpuðu illa gegn HK á sunnudaginn 4-1 í Kórnum.

„Við fórum beint í það eftir leikinn gegn HK að einblína á þennan leik. Við fórum strax í það á æfingunni í fyrradag og svo fórum við enn betur í það á æfingunni í gær hvernig við ætlum að taka á FH-ingunum í kvöld," sagði Kristján Flóki en hvað fór úrskeiðis í Kórnum?

„Við mættum ekki til leiks frá fyrstu mínútu og það virkar ekkert að mæta með hangandi haus í Kórinn, það vita það allir. Þeir eru sterkir á heimavelli og það er erfitt að spila þar. Við fengum að finna fyrir því, sérstaklega á fyrstu 20 mínútum leiksins."

Kristján Flóki sem er uppalinn í Hafnarfirði vonast til að félagar sínir verði KR-megin í stúkunni í kvöld. Hann segist hafa fylgst með FH-liðinu í sumar bæði frá Noregi og eftir að hann kom til landsins.

„Ég hef aðeins fylgst með þeim í sumar og sá síðasta leik hjá þeim gegn Val. Þeir voru hrikalega sterkir gegn Val og það verður erfitt að fara í Krikann en við stefnum á bikarúrslitinn og við trúum því að við getum sótt sigur í kvöld."

Ef Kristján Flóki fær tækifæri á vellinum í kvöld má búast við því að hann fái að kljást við leikmenn eins og Guðmann Þórisson og Pétur Viðarsson en þeir léku saman með FH á sínum tíma.

„Það verður gaman að mæta þeim. Maður hefur mætt þeim nokkrum sinnum áður á æfingum og það er alltaf gaman að kljást við þá," sagði Kristján Flóki sem segist ekki hika við það að fagna, skori hann í kvöld.

„Ef ég skora í undanúrslitum bikarsins þá fagna ég, sama á móti hverjum ég er að spila. Vonandi verður það sigurmarkið," sagði Kristján Flóki Finnbogason að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner