sun 14. október 2018 21:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rene Joensen vill spila í stærra félagi en Grindavík
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Færeyski miðvallarleikmaðurinn Rene Joensen er með samning við Grindavík út næstu leiktíð en fram kemur á færeyska miðlinum in.fo að hann sé jafnvel að hugsa sér til hreyfinga.

Rene skrifaði undir tveggja ára samning við Grindavík í október á síðasta ári. Í sumar spilaði hann 20 leiki í Pepsi-deildinni og skoraði í þeim tvö mörk.

Hjá in.fo kemur það fram að Rene vilji spila í stærra félagi þar sem allir leikmennirnir hafa það að sinni einu atvinnu að spila fótbolta.

Ef hann fer frá Grindavík þá myndi hann bætast í hóp nokkurra leikmanna sem hafa nú þegar gert það. Björn Berg Bryde, Brynjar Ásgeir Guðmundsson, Kristijan Jajalo og Sam Hewson eru allir búnir að staðfesta brottför sína frá félaginu. Þá eru nokkrir aðrir leikmenn samningslausir.

Óli Stefán Flóventsson hætti með Grindavík eftir tímabilið sem kláraðist í september en Túfa, sem þjálfaði áður KA, tók við hans stöðu. Óli Stefán tók þá við KA af Túfa.

Rene var í yngri liðum Bröndby á sínum tíma en hann lék síðan með HB í heimalandinu 2014 og 2015. Hann lék með Vendsyssel í Danmörku áður en hann samdi við Grindavík sumarið 2017.

Rene lék í dag með færeyska landsliðinu gegn Kosóvó í Þjóðadeildinni. Hann skoraði jöfnunarmarkið í 1-1 jafntefli.
Athugasemdir
banner
banner