sun 14. október 2018 10:30
Arnar Helgi Magnússon
Sara Björk: Kvennaknattspyrna tekið miklum framförum
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Nú á dögunum skrifaði Sara Björk Gunnarsdóttir landsliðsfyrirliði og leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi ítarlegan pistil þar sem hún talaði meðal annars um upphafsárin sín í knattspyrnu, markmið og fyrirmyndir.

Pistillinn birtist inná synumkarakter.is en „Sýnum karakter" er átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum.

Hugmyndafræði verkefnisins snýst um að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna félagslega færni iðkenda alveg eins og líkamlega.

„Það sem hefur skilað mér á þann stað sem ég er á í dag er keppnisskapið. Ég hef alltaf verið gríðarlega mikil keppnismanneskja og hef í gegnum tíðina fyrst og fremst keppt við sjálfa mig. Það hefur alltaf verið mitt helsta markmið að sigra"

„Ég öskraði oft á liðsfélaga mína um að senda á mig og reyndi alltaf að benda þeim á hvað þær áttu að gera, hvert átti að senda og á hvern. Stundum var ég of stjórnsöm og fór yfir línuna. Liðsfélagarnir mínir og foreldrar þeirra voru oft ekki sáttir með mína framkomu á vellinum"

„Ég átti erfitt með að hætta, því þetta var ég. Ég vildi gera allt til þess að vinna. Ég þoldi ekki að tapa eða keppa fyrir ekki neitt"

Sara talar einnig um að miklar framfarir í kvennaknattspyrnu hafi átt sér stað undanfarin ár.

„Að lokum langar mig að nefna það hvað kvennaknattspyrna hefur tekið miklum framförum á stuttum tíma og mun halda áfram að þróast og verða enn betri. Á hverju stórmótinu á fætur öðru sérðu ný lið bæta sig og færast ofar"

„Ungar íslenskar stelpur sjá kvennalandslið Íslands í fótbolta komast á stórmót og geta látið sig dreyma um það sjálfar að komast í landsliðið og upplifa stórmót."

Pistil Söru Bjarkar má sjá í heild sinni með því að smella hér.
Athugasemdir
banner
banner