mán 14. nóvember 2022 00:32
Brynjar Ingi Erluson
Neville hrifinn af hrokanum í Garnacho
Alejandro Garnacho fagnaði af innlifun
Alejandro Garnacho fagnaði af innlifun
Mynd: EPA
Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, er mjög svo hrifinn af argentínska ungstirninu Alejandro Garnacho en sá skoraði sigurmark United í 2-1 sigrinum á Fulham fyrr í kvöld.

Garnacho, sem er 18 ára gamall, hefur verið að fá tækifærið undir stjórn Erik ten Hag í síðustu leikjum og nýtt það vel.

Hann skoraði gegn Real Sociedad í Evrópudeildinni á dögunum og gerði svo sigurmarkið í uppbótartíma gegn Fulham í kvöld. Þá er hann með tvær stoðsendingar ofan á þessi tvö mörk á aðeins tíu dögum.

Neville segist hrifinn af hrokanum í þessum efnilega leikmanni.

„Ef þú ert ungur leikmaður hjá Manchester United þá verður þú að vera með smá hroka. Þú verður að vera með hátt sjálfsálit og það er útlit fyrir að hann sé með bæði það og ástríðuna. Hann bjó til magnað augnablik þarna og kramdi hjörtu Fulham. Þeir spiluðu svo vel í síðari hálfleik. James skoraði en Garnacho er hetjan,“ sagði Neville.
Athugasemdir
banner
banner
banner