Arnleifur Hjörleifsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við Njarðvík og kemur hann til félagsins frá ÍA.
Arnleifur er 25 ára vinstri bakvörður sem lék á láni hjá Njarðvík í Lengjudeildinni á liðnu tímabili og var eftirsóttur af liðum í Bestu deild og Lengjudeildinni eftir að hafa rift samningi sínum við ÍA.
Njarðvík greindi frá tíðindunum í kvöld.
Arnleifur Hjörleifsson gengur alfarið til liðs við Njarðvík!
Knattspyrnudeild Njarðvíkur og Arnleifur Hjörleifsson hafa gert með sér samning þess efnis að Arnleifur leiki með Njarðvíkurliðinu út leiktíðina 2027.
Arnleifur lék með Njarðvíkurliðinu á síðustu leiktíð, þá á láni frá ÍA, en nú gengur hann alfarið til liðs við okkur.
Arnleifur sem er vinstri bakvörður fæddur árið 2000 átti frábært tímabil í fyrra með okkur og var m.a. valinn í lið ársins í Lengjudeildinni hjá fotbolti.net.
Arnleifur kemur upprunalega frá Ólafsvík en hefur leikið með Kára, Kórdrengjum og ÍA ásamt Njarðvík á síðustu leiktíð eins og áður sagði.
Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára gamall þá er Arnleifur kominn með 192 meistaraflokksleiki á vegum KSÍ, og með 16 mörk í þeim.
Af 192 leikjum Arnleifs hafa 28 þeirra komið í Njarðvíkurbúningnum, og hlökkum við til þess að sjá hann í grænu treyjunni enn á ný.
Knattspyrnudeildin óskar Arnleifi innilega til hamingju með samninginn!


