Franska ofurstjarnan Kylian Mbappé hefur dregið sig úr landsliðshópnum fyrir lokaleik undankeppni HM gegn Aserbaídsjan. Frakkar eru búnir að tryggja sér toppsæti undanriðilsins.
Mbappé var í lykilhlutverki er Frakkar tryggðu sér sæti á lokamóti HM með sannfærandi sigri á heimavelli gegn Úkraínu í gær. Hann setti tvennu í leiknum og er þar með búinn að skora 400 mörk í keppnisleikjum á ferli sínum, þrátt fyrir að vera ekki nema 26 ára gamall.
„400 mörk eru ekkert merkilegt. Ég vil skrifa söguna sem þýðir að ég verð að skora að minnsta kosti 400 mörk til viðbótar. Það er einn leikmaður sem er með yfir 950 mörk skoruð og annar sem hefur sett meira en 900 mörk. 400 mörk eru ekki nóg ef ég vil telja mig í sama gæðaflokki og bestu leikmenn sögunnar," sagði Mbappé meðal annars eftir sigurinn gegn Úkraínu.
Mbappé er kominn með 28 mörk og stoðsendingar í 20 leikjum með Real Madrid og franska landsliðinu það sem af er tímabils.
Hann verður þó ekki með landsliðinu í Aserbaídsjan vegna bólgu í hægri ökkla. Óljóst er hvort hann geti verið með Real Madrid gegn Elche um næstu helgi.
„Við höfum spilað síðustu tvo leiki illa og við vitum það, en við mætum klárir til leiks eftir landsleikjahléð tilbúnir til að sigra gegn Elche. Við erum staðráðnir í að vinna titla á þessu tímabili."
Athugasemdir



