Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 15. febrúar 2019 13:31
Magnús Már Einarsson
Jón Þór: Eðlilega var Fanndís ekki sátt
Fanndís Friðriksdóttir.
Fanndís Friðriksdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Athygli vakti í dag að Fanndís Friðriksdóttir er ekki í íslenska landsliðshópnum sem fer á æfingamót í Algarve í lok mánaðarins.

Fanndís hefur skorað 15 mörk í 98 landsleikjum og verið fastamaður í byrjunarliðinu í áraraðir. Hún var í byrjunarliðinu í 2-1 sigri á Skotum í fyrsta leik undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar í síðasta mánuði.

Jón Þór valdi Fanndísi hins vegar ekki í hópinn sem fer á Algarve en hún er nýkomin aftur til Íslands eftir að hafa verið í láni hjá Adelaide í Ástralíu undanfarna mánuði.

„Fanndís er að koma heim frá Ástralíu og hefja sinn undirbúning fyrir Val í Pepsi-deildinni í sumar. Við töldum á þessum tímapunkti að hún þyrfti að vera heima frekar en að fara með okkur á Algarve í tvær vikur og spila þrjá leiki," sagði Jón Þór á fréttamannafundi í dag.

„Það hefur verið mikið álag á henni undanfarin ár og við vonumst til þess að hún komi sterkari til baka í komandi verkefni með A-landsliðinu."

Jón Þór segir að Fanndís hafi ekki verið sammála ákvörðuninni.„Eðlilega var Fanndís ekki sátt við það að koma ekki með liðinu út til Algarve. Við ræddum málin og ég greindi henni frá okkar forsendum fyrir þessu vali," sagði Jón Þór á fréttamannafundinum í dag.

„Hún er mikill keppnismaður eins og aðrir í þessu liði og taldi sig vera tilbúna í að koma með okkur. Við skildum sátt eftir okkar fund en ég held að það sé enginn sátt við að detta úr landsliðhóp."

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður Utah, var einnig í láni í Ástralíu en að sögn Jóns Þórs er möguleiki á að hún hvíli í apríl í næsta landsliðsverkefni en þá er tímabilið í Bandaríkjunum farið af stað.

Vonast til að Sandra María komi fersk inn
Sandra María Jessen, sóknarmaður Bayer Leverkusen, kemur inn í hópinn eftir að hafa ekki verið í liðinu gegn Skotum í síðasta mánuði.

„Sandra María var að fara í nýtt lið og koma sér fyrir þar. Við töldum að það væri ekki réttur tímapunktur fyrir hana að kom með okkur i janúar. Hún er núna búin að spila nokkra leiki með Leverkusen og gengið vel. Við vonum að hún komi fersk og sterk til baka í Algarve mótinu," sagði Jón Þór.

Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður Breiðabliks, er ekki í hópnum en hún er á leið í vináttuleik með U19 ára landsliði kvenna.

„Alexandra fer einnig í miliriðiil með U19 liðinu í apríl. Hún er lykilleikmaður í því öfluga liði og ef liðið á möguleika á að komast í lokakeppni þá er það mikil reynsla fyrir A-landsliðið í framtíðinni," sagði Jón Þór.

Smelltu hér til að sjá Algarve hópinn
Athugasemdir
banner