fös 15. mars 2019 14:00
Arnar Daði Arnarsson
Ásgeir Ingólfs: Tapar ekki 16-0 án þess að reyna það
Ásgeir Þór Ingólfsson í leik með Haukum sumarið 2014.
Ásgeir Þór Ingólfsson í leik með Haukum sumarið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Þór Ingólfsson leikmaður Hauka er í ítarlegu viðtali í nýjum hlaðvarpsþætti Hauka sem ber nafnið: Sóknarmenn Séra Friðriks.

Þar fer Ásgeir Þór Ingólfsson yfir meistaraflokksferil sinn bæði með Haukum og öðrum félögum sem hann hefur leikið með.

Árið 2013 lék Ásgeir með uppeldisfélagi sínu Haukum í 1. deildinni þar sem Fjölnir vann 1. deildina með 43 stig en Víkingur R, Haukar og Grindavík komu öll með 42 stig þar á eftir. Víkingur endaði í 2. sæti og fór upp í Pepsi-deildina á markatölu en liðið var með 28 mörk í plús á meðan Haukar voru með 20 mörk.

Í næstsíðustu umferðinni burstaði Víkingur lið Völsungs 16-0 og náði þar með betri markatölu en Haukar. Völsungur rak lestina í 1. deildinni með tvö stig þetta sumarið.

Þessi leikur hefur oft verið til umræðu síðustu ár. Ólafur Jóhannesson þáverandi þjálfari Hauka og núverandi þjálfari Vals ræddi þennan leik til að mynda í hlaðvarpsþættinum Návígi á Fótbolti.net á síðasta þar sem Valur var sektað fyrir ummæli Óla um þennan leik. Valur áfrýjaði dómnum og féll sektin úr gildi.

Ásgeir Þór Ingólfsson var spurður út í þennan leik í viðtalinu í þættinum Sóknarmenn Séra Friðriks.

„Þú tapar ekki 16-0 án þess að reyna það. Það á ekki að vera hægt. Þó að þú reynir að tapa 16-0 þá á það ekki einu sinni að vera hægt. Vissulega var mikil reiði bæði í garð Víkings og Völsungs," sagði Ásgeir og bætti við.

„Svo veit maður ekkert. Það getur vel verið að Víkingarnir séu að segja sannleikann. Skiljanlega finnst öllum þetta dularfullt fyrir utan þá sem eru Víkingar og Völsungar. Víkingur fór upp á markatölu eftir þennan leik og þessi umtalaður leikur hjálpaði þeim gríðarlega."

„Ég ætla ekki að gera mikið mál úr þessu núna en þetta sat vel í manni, ég viðurkenni það," sagði Ásgeir sem gekk til liðs við Hauka á nýjan leik í vetur eftir að hafa leikið í Noregi síðustu ár.

Hægt er að hlusta á Sóknarmenn Séra Friðriks með því að smella hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner