Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 15. mars 2019 10:22
Elvar Geir Magnússon
Scholes sagði upp með WhatsApp skilaboðum
Scholes var aðeins einn mánuð í starfi hjá Oldham.
Scholes var aðeins einn mánuð í starfi hjá Oldham.
Mynd: Getty Images
Abdallah Lemsagam, eigandi Oldham, segist vonsvikinn yfir því að Paul Scholes hafi ákveðið að segja upp sem stjóri félagsins.

Lemsagam segist undrandi á þeim ástæðum sem þessi fyrrum miðjumaður Manchester United hefur gefið upp.

Scholes sagði upp með því að senda skilaboð gegnum WhatsApp.

„Ég er búinn að vera í Dubai síðustu vikur og var bara í rólegheitum, vitandi að hann væri við stjórnvölinn. Ég var mjög undrandi að fá skilaboðin. Paul Scholes hefur ekki viljað ræða ástæður þess sem fékk hann til að taka þessa ákvörðun," segir eigandinn.

Lemsagam reyndi að hringja í Scholes og ræða málin en hann vildi ekki tala við hann, sagðist þegar vera búinn að taka ákvörðun.

Scholes var aðeins einn mánuð í starfi hjá Oldham.

Scholes stjórnaði liðinu í sjö leikjum en hann sá einungis sigur í einum þeirra.

„Á þessum stutta tíma sem að ég stýrði Oldham var mér það ljóst nokkuð snemma að hlutirnir væru ekki alveg eins og ég vonaðist eftir hjá félaginu og því ákvað ég að stíga til hliðar," sagði Scholes.

Oldham er nú aftur komið í þjálfaraleit en liðið mætir Tranmere á laugardag. Liðið situr í fjórtánda sæti ensku D-deildarinnar.

Scholes er 44 ára. Hann vann 11 Englandsmeistaratitla, þrjá bikarmeistaratitla og tvo Meistaradeildartitla sem leikmaður Manchester United.
Athugasemdir
banner
banner