mán 15. apríl 2019 17:00
Elvar Geir Magnússon
De Bruyne: Talaði bara tvisvar við Mourinho
De Bruyne í leik með Chelsea.
De Bruyne í leik með Chelsea.
Mynd: Getty Images
Kevin De Bruyne hjá Manchester City segist aðeins tvisvar hafa rætt við Jose Mourinho þegar þeir voru hjá Chelsea. Belginn spilaði aðeins þrjá úrvalsdeildarleiki á tveimur árum hjá Chelsea og var á láni hjá Werder Bremen í eitt ár.

Hann yfirgaf Chelsea og fór til Wolfsburg í janúar 2014 áður en hann hélt til City 2015.

„Það var mikið talað um samband mitt við Jose Mourinho í fjölmiðlum. En sannleikurinn er sá að ég talaði aðeins tvisvar við hann," segir De Bruyne.

„Mourinho sendi mér skilaboð og sagði: 'Þú verður áfram. Ég vil að þú verðir hluti af liðinu'. - Ég taldi mig þá vera í planinu hjá honum."

De Bruyne byrjaði tvo af fyrstu fjórum deildarleikjum tímabilsins 2013-14 hjá Chelsea en féll svo út í kuldann hjá Mourinho.

„Jose bað mig um að koma inn á skrifstofu til sín í desember. Hann var með blöð fyrir framan sig og sagði: 'Ein stoðsending, ekkert mark', svo byrjaði hann að lesa tölfræði annarra sóknarleikmanna. Jose beið eftir því að ég myndi segja eitthvað og að lokum sagði ég: 'En... sumir af þessum gaurum hafa spilað 15-20 leiki en ég hef bara spilað þrjá'."

„Þetta var svo furðulegt. Ég var alveg heiðarlegur og sagði að ég hefði á tilfinningunni að félagið vildi ekki hafa mig. Ég vildi spila fótbolta og bað um að vera seldur."

De Bruyne er lykilmaður hjá City og belgíska landsliðinu í dag og oft nefndur í umræðum um bestu leikmenn Evrópuboltans í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner