mán 15. október 2018 14:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Samningur Almars féll úr gildi - Fjölnir eða Pepsi?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Almarr Ormarsson ætlar að skoða sín mál á næstu dögum. Hann spilaði fyrir lið Fjölnis í sumar, en Fjölnir féll úr Pepsi-deildinni, niður í Inkasso-deildina.

Almarr skrifaði undir þriggja ára samning í nóvember síðastliðnum en þar sem Fjölnir féll úr Pepsi-deildinni þá féll samningurinn við hann úr gildi.

Fótbolti.net hafði samband við Almarr í dag, en hann er í fríi og ætlar að skoða mál sín þegar hann kemur úr því.

„Ég er samningslaus og veit sjálfur ekki framhaldið," sagði Almarr við Fótbolta.net. „Ég er búinn að ræða við Fjölni og heyra aðeins í öðrum félögum. Eins og staðan er núna er ég í fríi og er því nokkuð rólegur."

Aðspurður að því hvort hann væri til í að fara niður með Fjölni í Inkasso-deildina sagði Almarr:

„Ég mun skoða það eins og annað, en metnaðurinn er þannig að ég vil spila í efstu deild. Ég á eftir að setjast niður með nýjum þjálfara. Ég útiloka ekki neitt en ég mun líka skoða þá möguleika sem í boði eru í Pepsi-deildinni."

Ásmundur Arnarsson tók við Fjölni af Ólafi Páli Snorrasyni eftir tímabilið og mun hann stýra liðinu næsta sumar.

En hvað var það sem fór úrskeiðis hjá Fjölni í sumar.

„Það er góð spurning. Við vorum klaufar fannst mér, við vorum að tapa leikjum sem við áttum ekki að tapa, og gera jafntefli í leikjum sem við áttum að vinna. Það komu líka leikir þar sem við vorum lélegir."

„Heilt yfir fannst mér við vera að spila nokkuð fínt, en við kláruðum aldrei leiki, við gerðum aulaleg mistök og fengum á okkur mörk. Þetta féll ekki með okkur - við vorum sjálfum okkur verstir," sagði Almarr að lokum.

Almarr er ekki eini leikmaður Fjölnis sem er að skoða sín mál. Birnir Snær Ingason og Ægir Jarl Jónasson eru líka á meðal leikmanna liðsins sem eru að gera það.

Ásmundur Arnarsson tók við liðinu, eins og fyrr segir, og hans bíður ágætis verkefni að halda leikmönnum hjá liðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner