lau 16. mars 2019 18:29
Ívan Guðjón Baldursson
Rodgers ánægður með Wes Morgan: Stórkostlegt skallamark
Mynd: Getty Images
Harry Maguire fékk rautt spjald snemma leiks er Leicester heimsótti Burnley í ensku úrvalsdeildinni fyrr í dag.

Wes Morgan kom inná til að fylla í holuna í vörninni og átti frábæran leik. Hann sýndi mikla leiðtogahæfileika og gerði sigurmarkið í leik þar sem tíu leikmenn Leicester stóðu uppi sem sigurvegarar á erfiðum útivelli.

„Þú færð engin stig fyrir að spila stílhreina knattspyrnu á útivelli gegn Burnley. Hérna þarftu að berjast fyrir hverjum einasta bolta, sérstaklega þegar þú missir mann af velli snemma leiks. Jonny (Evans) og Wes (Morgan) voru ótrúlegir, liðið skilaði inn góðri frammistöðu og við nýttum færin okkar," sagði Rodgers.

„Þegar við lentum manni undir snerist þetta um að halda haus og ekki eyða orku í óþarfa hlaup. Strákarnir stóðu sig ótrúlega vel og sönnuðu að þeir eru með sterkt hugarfar. Undanfarnar vikur hafa verið frábærar.

„Wes er leikmaður sem stendur fyrir öllu því sem við viljum vera sem félag. Hann er ótrúlega góður náungi og mjög hógvær. Ég er ánægður fyrir hans hönd, strákarnir stóðu upp og klöppuðu fyrir honum eftir leikinn. Þetta var stórkostlegt skallamark."


Leicester siglir lygnan sjó um miðja úrvalsdeild og á heimaleik gegn Bournemouth í næstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner