mán 16. mars 2020 22:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Áhugaverðasti aðstoðarþjálfarinn" kom sér á framfæri á bloggsíðu
Rene Maric.
Rene Maric.
Mynd: Getty Images
Maric og Marco Rose. Þeir hafa starfað saman hjá Salzburg og Gladbach.
Maric og Marco Rose. Þeir hafa starfað saman hjá Salzburg og Gladbach.
Mynd: Getty Images
Rene Maric er 27 ára gamall aðstoðarþjálfari Borussia Mönchengladbach í þýsku úrvalsdeildinni. Raphael Honigstein, sem skrifar um þýska boltann fyrir The Athletic, segir Maric vera yngsta og jafnframt áhugaverðasta aðstoðarþjálfarann í deildinni.

Honigstein birtir áhugavert viðtal sitt við Maric í dag þar sem þeir fara yfir taktík í fótbolta.

Viðtalið má nálgast hérna.

Fótboltasaga Maric er mjög áhugaverð. Hann ræddi við Nick Ames hjá Guardian árið 2018 er hann var aðstoðarþjálfari Salzburg í Austurríki. Þar ræddi hann um ferilinn á 26 ára afmælisdegi sínum.

Maric byrjaði að þjálfa í þorpinu þar sem hann ólst upp, Handenberg, sem er um 50 kílómetrum frá Salzburg. Hann átti erfitt með að deila hugmyndafræði sinni í 1000 manna þorpi og leitaði því á internetið þar sem hann fann kollega í spjallhópum. Með fjórum þeirra hóf Maric verkefni sem myndi hafa gríðarleg áhrif á feril hans.

„Við vorum bara fimm náungar sem vildum tala um fótbolta," sagði Maric um bloggsíðuna Spielverlagerung, sem hóf göngu sína árið 2011. Á síðunni má finna stórkostlegar greinar um leikgreiningu, taktík og fótbolta almennt.

Maric, sem er útskrifaður sálfræðinemi, fékk svo einn daginn tölvupóst frá einum af aðstoðarmönnum Thomas Tuchel. Þá breyttist allt. Tuchel, núverandi þjálfari Paris Saint-Germain, var þá að stýra Mainz í Þýskalandi. „Tuchel hafði séð eina af greinum okkar um hans lið og hann hugsaði með sér: 'Þetta er nokkuð rétt, hvernig vissu þeir þetta?' Hann bauð okkur til Mainz og vildi heyra skoðanir okkar."

Hópurinn á bak við Spielverlagerung fékk nokkur verkefni frá Tuchel, verkefni sem tengdust aðallega leikgreiningu. Maric fékk svo verkefni frá Matthew Benham, eiganda Brentford í Englandi og Midtjylland í Danmörku. Svo frá Salzburg.

Marco Rose var þá þjálfari U18 liðs Salzburg og hann var eins og Tuchel hrifinn af því sem Maric hafði skrifað á bloggsíðunni. Þeir hittust nokkrum sinnum og ræddu klukkustundum saman um taktík og æfingaaðferðir. „Við höfðum verið að tala um alls konar hluti og svo spurði ég bara: 'Vantar þér aðstoðarþjálfara á næsta tímabili?' Hann sagði: 'Já, við skulum prófa það.' Það virkaði á endanum mjög vel."

Það er vægt til orða tekið. Salzburg vann Evrópukeppni unglingaliða á fyrsta tímabili Rose og Maric saman. Rose fékk starfið hjá aðalliði Salzburg og fór Maric með honum. Svo tók Rose við Gladbach fyrir þetta tímabil og aftur fór Maric með honum.

Þeir eru með Gladbach í Meistaradeildarsæti eins og er, en viðtalið við Maric á Guardian má lesa hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner