Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 16. apríl 2018 12:15
Elvar Geir Magnússon
Hin hliðin - Oddur Ingi Guðmundsson (Fylkir)
Oddur Ingi sýnir á sér hina hliðina.
Oddur Ingi sýnir á sér hina hliðina.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylki er spáð tíunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar en liðið er komið aftur upp í deildina eftir eins árs veru í Inkasso. Samhliða spánni er einn leikmaður í hverju liði sem sýnir á sér hina hliðina. Oddur Ingi miðjumaður Fylkis fær sviðið í dag.

Fullt nafn: Oddur Ingi Guðmundsson.

Gælunafn sem þú þolir ekki: Duri Drama.

Aldur: 29 ára.

Hjúskaparstaða: Í sambúð.

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki: 10.2.2005 á móti Fjölni.

Uppáhalds drykkur: Vatn.

Uppáhalds matsölustaður: Búllan.

Hvernig bíl áttu: Á ekki bíl.

Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Summer Heights High.

Uppáhalds tónlistarmaður: Á mér uppáhalds ljóðskáld og það er Steinn Steinarr.

Uppáhalds samskiptamiðill: Er alfarið á móti samfélagsmiðlum en af illri nauðsyn þá vel ég Facebook.

Skemmtilegasti “vinur" þinn á Snapchat: Rúnar Pálmason, sjúkraþjálfari Fylkis og einn sterkasti maður Íslands. Hann er samt ekki vinur minn.

Hvað viltu í bragðarefinn þinn: Er með meint mjólkuróþol og borða því ekki ís.

Hvernig hljómar síðasta sms sem þú fékkst: Fullyrðing þessi um óeðli Metúsalem stenst ritskoðun vegna tveggja þátta. Hegðun okkar er stýrt af tveimur ólíkum þáttum. Henni er stýrt með lögum annars vegar og óskrifuðum reglum. eins og viðmiðum og gildum hins vegar. Metúsalem svívirðir báða þessa þætti í sínu daglega fasi. Hann hatar yfirvöld og lætur ekki stýrast af fastmótuðum reglum. Viðmið og gildismat Metúsalems ráðast einungis af geðþótta og hvað honum einum finnst við hæfi.
– Sigurður Þór Reynisson.

Hvaða liði myndir þú aldrei spila með: Leikni R.

Besti leikmaður sem þú hefur mætt: Ingvar Þór Ólason.

Mest óþolandi leikmaður sem þú hefur mætt: Einhver gaur í Selfossi.

Sætasti sigurinn: Að vinna Inkasso deildina í fyrra.

Mestu vonbrigðin: Að uppgötva að í draumi sérhvers manns er fall hans falið.

Uppáhalds lið í enska: Manchester United.

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði í þitt lið: Væri til í að fá Daníel Frey leikmann Elliða í toppstandi.

Fyrsta verk ef þú yrðir formaður KSÍ: Skylda öll lið á gervigras í efstu tveimur deildunum og lengja tímabilið.

Efnilegasti knattspyrnumaður/kona landsins: Kristófer Máni Friðriksson.

Fallegasti knattspyrnumaðurinn á Íslandi: Kristófer Máni Friðriksson.

Fallegasta knattspyrnukonan á Íslandi: Kristófer Máni Friðriksson.

Hver er mesti höstlerinn í liðinu: Valdimar Þór Ingimundarson.

Uppáhalds staður á Íslandi: Álakvísl 120, 110 Árbær.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik: Í blóma lífsins, 9 ára gamall, að njóta þess að spila knattspyrnu á Eyjamótinu með félögum mínum þá sagði markmaður liðsins og besti vinur minn, Björn Metúsalem Aðalsteinsson, við mig: „Drullaðu þér til baka helvítis ****** ****** ******* þín”. Tilefni þessarar athugasemdar var með öllu tilgangslaus því ég var þegar kominn til baka eftir sókn og staðan var 10-0 fyrir okkur. Móðir mín er enn að ná sér eftir þetta atvik og ég þurfti áfallahjálp enda bara saklaus lítill drengur. Enn fremur þá hefur Björn ekki séð sóma sinn í að biðjast afsökunar á þessu atferli sínu, hvorki við mig né móðir mína, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að leita sátta.

Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú vaknar: Labba með hundinn minn.

Fyrir utan knattspyrnu, fylgist þú með öðrum íþróttum: Nei.

Í hvernig fótboltaskóm spilar þú: Nike Magista.

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: List- og verkgreinum.

Uppáhalds Eurovision lag frá upphafi: Ég hata Eurovision.

Vandræðalegasta augnablik: Að hafa ekki áttað mig á því fyrr að margt er tilviljunum háð og ekkert skiptir máli nema það sem þú setur þér fyrir hendur.

Hvaða þrjá leikmenn tækir þú með þér á eyðieyju: Tæki þrjá fyrrum leikmenn Fylkis með mér og haldin yrði leðurhátíð á eyjunni. Bjarni Þórður Halldórsson, Kristján Valdimarsson og Ólafur Ingi Skúlason yrðu fyrir valinu.

Sturluð staðreynd um sjálfan þig: Ég er bara lítill tómhyggjutittur og í raun og veru veit ekki neitt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner