mán 16. apríl 2018 20:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísrael: Viðar skoraði en slæmt gengi liðsins heldur áfram
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson var á skotskónum fyrir Maccabi Tel Aviv en náði ekki að koma í veg fyrir tap liðsins í kvöld.

Maccabi heimsótti Beitar í Jerúsalem og það er óhætt að segja frá því að leikurinn hafi ekki byrjað vel fyrir Viðar og félaga. Beitar komst í 2-0 þegar 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Maccabi náði að minnka muninn en staðan í hálfleik var þó 3-1.

Viðar skoraði eftir 13 mínútur í seinni hálfleiknum og minnkaði muninn í 3-2 en lengra komust hans menn ekki.

Lokatölur 3-2 fyrir Beitar Jerúsalem og er afar ólíklegt að Maccabi verði meistari. Liðið er 12 stigum á eftir Hapoel Be'er Sheva þegar sex umferðir eru eftir af úrvalsdeildinni í Ísrael.

Maccabi hefur tapað fjórum deildarleikjum í röð.

Viðar Örn er líklega á förum í sumar eftir tvö ár hjá félaginu. Áhugi er á honum frá Englandi og Þýskalandi en Viðar er kominn með 12 mörk í ísraelsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.
Athugasemdir
banner
banner
banner