Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 16. maí 2018 12:15
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Hjörtur Hermanns: Var hátt uppi í skýjunum en svo komu þessi gríðarlegu vonbrigði
Icelandair
Hjörtur varð bikarmeistari með Bröndby en daginn eftir var hann rifinn úr skýjunum.
Hjörtur varð bikarmeistari með Bröndby en daginn eftir var hann rifinn úr skýjunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Alex Rúnarsson og Hjörtur.
Rúnar Alex Rúnarsson og Hjörtur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Hjörtur Hermannsson upplifði miklar öfgar í síðustu viku. Þessi 23 ára Árbæingur varð danskur bikarmeistari með Bröndby á fimmtudeginum en daginn eftir fékk hann þær fréttir að hann hefði ekki verið valinn í landsliðshóp Íslands fyrir HM í Rússlandi.

„Þetta voru miklar sviptingar, fyrst voru miklar hæðir en svo gríðarleg vonbrigði strax daginn eftir. Svona fór um sjóferð þá og lítið sem maður getur gert," segir Hjörtur í samtali við Fótbolta.net.

Óska ekki neinum að upplifa þetta
Hjörtur var yngsti leikmaður íslenska hópsins á EM 2016 og honum var spáð sæti í hópnum í útvarpsþættinum Fótbolti.net fyrir valið.

„Maður gerði sér vonir um að vera í hópnum, mér hefur gengið vel hjá mínu félagsliði og er búinn að spila flestalla leiki. Við unnum bikarinn og erum í lykilstöðu til að taka sjálfan meistaratitilinn. Það voru gífurleg vonbrigði að fá ekki sæti á HM en þvílík ánægja með hvernig hefur gengið hjá félagsliðinu."

„Það var ekki skemmtilegt að fá fréttirnar, ég óska ekki neinum að upplifa þetta. Maður var hátt uppi í skýjunum eftir bikarinn en samt áttaði maður sig á því að valið yrði daginn eftir. Þetta var búin að vera furðuleg vika í aðdragandanum, bæði út af leiknum og valinu. Hausinn fór út um allt," segir Hjörtur.

Hópurinn sem er að fara gríðarlega sterkur
Tók hann helgina í að jafna sig á því að vera ekki valinn eða er hann enn svekktur?

„Þegar talið berst að þessu er maður auðvitað svekktur. Það er draumur hvers og eins að fara á stórmót með Íslandi. Ég fékk þá upplifun á EM, maður gerði sér engar vonir um að fara þangað. Svo er annað uppi á teningnum núna þegar maður gerir sér miklar vonir um að fara til Rússlands en enda á að vera ekki inni. Þetta er súrt en þessi hópur sem er að fara er gríðarlega sterkur og ég vissi að það yrði mikil samkeppni."

„Nú er bara að stilla sig inn á þessa tvo leiki sem Bröndby á eftir í deildinni. Ef við klárum þá verðum við meistarar. Það er búið að vera mikil ánægja með gengi okkar á tímabilinu og ég er verulega ánægður með hvernig ég hef spilað. Leikjaálagið að undanförnu hefur verið fáránlegt og við erum þrír varnarmenn sem erum að skipta þessu. Þetta hefur verið eins og hraðmót," segir Hjörtur.

Bikarmeistaratitli Bröndby var vel fagnað í Kaupmannahöfn enda langþráður hjá félaginu.

„Þetta var fyrsti titillinn sem félagið vinnur í tíu ár. Þetta er stór klúbbur sem á að vera að lyfta bikurum á hverju ári. Stuðningurinn sem við fengum í úrslitaleiknum var geggjaður, ég held að 27 þúsund manns hafi verið á bandi Bröndby og 3.000 frá Silkeborg," segir Hjörtur sem lék allan leikinn í 2-1 sigri. Hann var eini leikmaður Bröndby sem lék hverja einustu mínútu í bikarkeppninni.
Athugasemdir
banner
banner
banner