Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 16. júní 2018 21:00
Gunnar Logi Gylfason
HM: Króatía byrjar á sigri í riðli okkar Íslendinga
Mynd: Getty Images
Nú er öllum leikjum dagsins á HM lokið. Síðasti leikur dagsins var leikur Króata og Nígeríumanna sem lauk með sigri Króata.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og var sótt á báða bóga. Líklegt er að dagskipun Króata hafi verið að reyna á hinn 19 ára gamla Francis Uzoho í marki Nígeríu.

Króatar sterkari

Fyrsta mark leiksins kom á 32. mínútu. Þá fengu Króatar hornspyrnu sem var skölluð áfram í áttina að Mandzukic sem henti sér fram og skallaði boltann í Oghenekaro Etebo en af honum fór boltinn inn.

Staðan var 1-0 í hálfleik og allt enn opið.

Agaleysi varð Nígeríu að falli

Bæði lið fengu tækifæri á að bæta við marki í leikinn í seinni hálfleik en Króatarnir voru sterkari eins og við var búist.

Á 70. mínútu fengu Króatar hornspyrnu. Þegar hún var tekin fannst William Troost-Ekong sniðugt að halda utan um Mandzukic og fékk hann að launum dæmt á sig víti og gult spjald.




Úr vítinu skoraði fyrirliði Króata, Luka Modric, og tvöfaldaði þar með forystuna. Eftir það gátu Króatar verið aðeins rólegri. Nígeríumenn gerðu hvað þeir gátu til þess að minnka muninn og jafna en inn vildi boltinn ekki.

Í uppbótartímanum komst Mateo Kovacic í gegn en í staðinn fyrir að gefa á samherja sem var í betra færi ákvað hann að skjóta en Uzoho, í marki Nígeríumanna, sá við honum.

Ekki var meira skorað og 2-0 sigur Króatíu staðreynd.

Hvað þýða þessi úrslit?

Króatar skella sér í toppsæti riðilsins eftir fyrstu umferðina. Nígeríumenn eru þar af leiðandi í því neðsta.

Króatar mæta Argentínumönnum á fimmtudaginn og geta þeir þar komið sér í lykilstöðu.

Nígeríumenn mæta Íslendingum á föstudaginn og mun vafalítið þurfa á sigri að halda ætli liðið að eiga möguleika á að komast áfram þegar kemur að síðasta leiknum.
Athugasemdir
banner
banner