banner
   mán 16. júlí 2018 13:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í Inkasso: Markmiðið að skora í hverjum einasta leik
11. umferð: Viktor Jónsson (Þróttur R.)
Viktor í leik með Þrótti í sumar.
Viktor í leik með Þrótti í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Viktor Jónsson framherji Þróttar í Inkasso-deildinni er leikmaður 11. umferðar á Fótbolta.net eftir sína frammistöðu í 4-1 sigri liðsins gegn ÍA á heimavelli.

Viktor var á eldi í leiknum og skoraði þrennu og hefði getað bætt við fleiri mörkum.

„Ég var mjög ánægður en með smá súrt bragð í munni yfir þessum færum. Ég ætla ekki að taka neitt af Árna í markinu því hann varði skallann fáránlega vel en þetta eru bæði færi sem ég er ekki vanur að klúðra," sagði Viktor og hélt áfram.

„Ég held ég að þetta hafi verið blanda af þreytu og einbeytingarleysi en það er ekki til neins að svekkja sig á þessu. Leiðinlegt líka að hafa ekki náð að bæta fimmta markinu við fyrir Konna okkar."

Viktor var ánægður með sigurinn á Skagaliðinu og segir að Þróttaraliðið hafi mætt vel undirbúið til leiks.

„Æfingavikan var mjög góð, tempóið á æfingum hátt og Gulli gaf okkur mikið af upplýsingum sem við gátum nýtt okkur," en Gunnlaugur Jónsson þjálfari Þróttar þekkir að sjálfsögðu Skagaliðið afspyrnuvel eftir að hafa þjálfað þar síðustu ár.

Þetta var aðeins fyrsti sigurinn Þróttar á heimavelli í deildinni í sumar. Viktor kippir sér lítið upp við því og segir það skipta hann litlu máli hvar leikið sé.

„Persónulega skiptir það mig litlu máli hvort leikir séu úti eða heima. Þetta hefur nú yfirleitt verið öfugt hjá okkur og árangurinn á útivelli hefur verið slakur á meðan við vorum nánast óstöðvandi á heimavelli."

Þróttur er í 5. sæti deildarinnar, sjö stigum á eftir liðunum í 2. - 4. sæti. Viktor telur liðið eiga raunhæfa möguleika á að komast upp um deild en Inkasso-deildin er hálfnuð.

„Ef við tökum sömu seiglu og HK á þetta í fyrra og sankum að okkur 30 stigum eða svo í seinni umferðinni þá ættum við að vera með stigafjöldann sem þarf til að komast upp. Við höfum alveg sýnt það að við getum verið besta liðið í þessari deild þegar við spilum svona vel eins og á móti Skaganum og Haukum. Við höfum ekki náð að vera nógu stabílir en vonandi náum við því og svo sjáum við hvað gerist."

Næst var Viktor spurður að því hvað hann verði búinn að skora mörg mörk þegar tímabilið er búið en þegar deildin er hálfnuð hefur Viktor skorað átta mörk.

„Góð spurning. Ég hef nú ekki sett mér neitt markmið varðandi það en ég vil skora í hverjum einasta leik og ætli það sé ekki eina markmiðið mitt varðandi markaskorun, að skora í hverjum einasta leik."

Þróttur mætir Njarðvík á heimavelli í næstu umferð, á föstudaginn næstkomandi. Hann segir það vera mjög mikilvægt fyrir framhaldið að ná í þrjú stig í þeim leik.

„Þetta er annar heimaleikur sem er mikilvægt að við klárum. Ná að tengja saman sigra og byggja ofan á það sem við gerðum á móti ÍA," sagði Viktor að lokum en þetta er í annað sinn sem Viktor er leikmaður umferðarinnar í Inkasso-deildinni í sumar.

Fyrri leikmenn umferðarinnar
10. umferð - Arnór Snær Guðmundsson (ÍA)
9. umferð - Emir Dokara (Víkingur Ó.)
8. umferð - Viktor Jónsson (Þróttur R.)
7. umferð - Tiago Fernandes (Fram)
6. umferð - Sólon Breki Leifsson (Leiknir R.)
5. umferð - Guðmundur Axel Hilmarsson (Selfoss)
4. umferð - Alvaro Montejo Calleja (Þór)
3. umferð - Steinar Þorsteinsson (ÍA)
2. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
1. umferð - Ingiberg Ólafur Jónsson (HK)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner