Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 16. júlí 2018 21:13
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi-deildin: KR skoraði fimm - Dramatískt sigurmark Blika
Pálmi hefur verið funheitur í sumar.
Pálmi hefur verið funheitur í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru spilaðir tveir leikir í Pepsi-deild karla í kvöld þar sem Fylkir tók á móti KR í Árbænum á meðan Breiðablik fékk Fjölni í heimsókn í Kópavoginn.

Vesturbæingar mættu grimmir í Árbæ og voru komnir með tveggja marka forystu eftir sjö mínútna leik. Pálmi Rafn Pálmason gerði fyrra markið eftir góðan undirbúning frá Kennie Knak Chopart og gerði Andre Bjerregaard annað markið þegar hann var fyrstur að bregðast við og fylgdi eftir skoti í varnarmann með marki.

Daði Ólafsson minnkaði muninn með marki beint úr aukaspyrnu skömmu áður en Bjerregaard bætti við forystu gestanna. Aftur var hann fyrstur að átta sig á hlutunum í vítateig Fylkis og skoraði eftir að boltinn hrökk af stönginni.

Pálmi Rafn gerði svo fjórða markið úr vítaspyrnu og voru KR-ingar 4-1 yfir í hálfleik.

Ekki var skorað meira fyrr en í lok síðari hálfleiks þegar Ásgeir Eyþórsson minnkaði muninn eftir hornspyrnu áður en Chopart gerði sjöunda og síðasta mark leiksins.

Þetta var fjórði tapleikur Fylkis í röð og er liðið með ellefu stig eftir tólf umferðir. KR er sex stigum ofar, um miðja deild.

Aðra sögu var að segja í Kópavogi þar sem Blikar fengu Fjölni í heimsókn. Það tók Thomas Mikkelsen aðeins fjórtán mínútur að komast á blað í Pepsi-deildinni þegar hann fylgdi eftir skoti frá Gísla Eyjólfssyni með marki.

Leikurinn var hrikalega leiðinlegur og var lítið um færi, en Fjölnismenn náðu að jafna undir lokin. Birnir Snær Ingason nýtti sér slakan varnarleik Blika eftir fyrirgjöf og hamraði knettinum í netið á 82. mínútu.

Skömmu síðar fór Birnir Snær meiddur af velli og náðu heimamenn að tryggja sér þrjú stig með dramatísku sigurmarki í uppbótartíma. Oliver Sigurjónsson skoraði þá laglegt mark beint úr aukaspyrnu.

Fylkir 2 - 5 KR
0-1 Pálmi Rafn Pálmason ('6)
0-2 Andre Bjerregaard ('7)
1-2 Daði Ólafsson ('15)
1-3 Andre Bjerregaard ('22)
1-4 Pálmi Rafn Pálmason ('29, víti)
2-4 Ásgeir Eyþórsson ('86)
2-5 Kennie Chopart ('91)

Breiðablik 2 - 1 Fjölnir
1-0 Thomas Mikkelsen ('14)
1-1 Birnir Snær Ingason ('82)
2-1 Oliver Sigurjónsson ('91)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner