fim 16. júlí 2020 22:40
Ívan Guðjón Baldursson
Solskjær: Getum ekki leyft okkur að byrja svona hægt
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær var ánægður eftir 0-2 sigur Manchester United gegn Crystal Palace fyrr í kvöld.

Marcus Rashford skoraði rétt fyrir leikhlé og innsiglaði Anthony Martial sigurinn í seinni hálfleik. Solskjær var ekki sérlega hrifinn af spilamennsku sinna manna þrátt fyrir sigurinn og hrósaði andstæðingunum fyrir góða frammistöðu.

„Þetta var jafn leikur og við fundum ekki rétta taktinn en unnum þökk sé tveimur frábærum mörkum. Marcus Rashford kláraði færi sitt frábærlega eftir snöggt samspil. Við gerðum ekki nóg af því þar sem við vorum að spila við erfiða andstæðinga, strákarnir þurfa að treysta meira á sjálfa sig og þora að reyna þessar sendingar," sagði Solskjær.

„Við byrjuðum ekki að spila okkar leik fyrr en í stöðunni 2-0. Við getum ekki leyft okkur að byrja leiki svona hægt eins og við gerðum í dag."

Heimamenn vildu fá vítaspyrnu þegar Victor Lindelöf felldi Wilfried Zaha innan vítateigs. Dómarinn dæmdi ekkert og endursýningar sýndu að Lindelöf náði að setja tánna í knöttinn.

„Þetta var erfið ákvörðun en það gerðist svipað með Anthony Martial. Að mínu mati var þetta ekki vítaspyrna, Victor Lindelöf sparkaði fyrst í boltann."

Man Utd er í harðri baráttu við Leicester og Chelsea um Meistaradeildarsæti eftir þennan sigur.

„Það bjóst enginn við því í janúar að við gætum barist um fjórða sætið. Við höfum verið frábærir eftir hlé og leikmenn verða að halda áfram að stíga upp og sýna hvers þeir eru megnugir. Það sem einkennir Manchester United eru sterkir persónuleikar sem stíga upp þegar á reynir."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner