Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 16. ágúst 2018 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stærsta endurkoman í 33 ár - Zenit með átta í framlengdum leik
Mynd: Getty Images
Zenit frá Pétursborg gerði sér lítið fyrir og sigraði Dinamo Minsk frá Hvíta-Rússlandi 8-1 í Evrópudeildinni í kvöld.

Þetta eru ótrúleg úrslit eins og lokatölurnar gefa til kynna, en það sem er enn ótrúlegra er það að Zenit tapaði fyrri leiknum á útivelli í Hvíta-Rússlandi 4-0.

Zenit komst í 2-0 og virtist vera á útleið þegar Argentínumaðurinn Leandro Paredes fékk sitt annað gula spjald er 18 mínútur voru til leiksloka.

Zenit þurfti tvö mörk til viðbótar, einum færri, en viti menn... þeim tókst að gera akkúrat það. Artem Dzyuba, sem var flottur á HM með Rússlandi, skoraði tvö á síðustu mínútunum og kom Zenit í framlengingu.

Dzyuba fullkomnaði þrennuna í framlengingunni þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 115. mínútu. Þá var Dzyuba að koma Zenit í 6-1, en Dinamo hafði minnkað muninn í 4-1 og Sebastian Driussi komið Zenit í 5-1. Þess má geta að 5-1 hefði ekki nægt Zenit vegna reglunnar um útivallarmörk.

Leikurinn var fullur af dramatík en Robert Mak átti eftir að bæta við tveimur mörkum fyrir Zenit áður en flautað var til leiksloka. Leikmaður Dinamo Minsk fékk þá rautt spjald áður en yfir lauk. Lokatölur 8-1 fyrir Zenit í þessum ótrúlega leik og er þetta stærsta endurkoman í þessari keppni í 33 ár.

Zenit mætir lærisveinum Ole Gunnar Solskjær í Molde í næstu umferð, síðustu umferð forkeppninnar fyrir riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Sjá einnig:
Evrópudeildin: Mörg Íslendingalið áfram - Hvernig er framhaldið?
Athugasemdir
banner
banner
banner