Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 16. september 2018 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Robertson: Megum ekki eiga kaflaskipt tímabil
Mynd: Getty Images
Andy Robertson hefur verið frábær frá komu sinni til Liverpool í fyrra en vinstri bakvarðarstaðan hafði verið til vandræða hjá félaginu undanfarin ár.

Liverpool komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili og er búið að vinna fyrstu fimm leiki úrvalsdeildartímabilsins. Robertson hefur trú á því að Liverpool geti unnið bæði úrvalsdeildina og Meistaradeildina á þessu tímabili.

„Við förum í hvern einasta leik til að vinna hann. Við höfum þessa trú því við erum Liverpool, stórt félag með mikla sögu. Þetta er hugsunarháttur stórliða, þú ferð í hvern leik til að vinna hann," sagði Robertson.

„Við reynum að vinna alla leiki í öllum keppnum. Við eigum deildabikarinn í næstu viku og það verður nákvæmlega eins þegar FA bikarinn byrjar. Við viljum vinna allt.

„Það er algjört lykilatriði að spila alltaf vel. Ef við viljum vinna þá megum við ekki eiga kaflaskipt tímabil. Þannig vann Man City í fyrra, þeir voru góðir allt tímabilið."


Fyrsti leikur Liverpool í Meistaradeildinni er gegn Paris Saint-Germain á þriðjudaginn. PSG er búið að vinna alla leiki sína í deildinni og ljóst er að um hörkuleik er að ræða.

„PSG er með frábært lið og þetta verður erfiður leikur. Við erum í erfiðum riðli og þurfum að byrja vel. Við þurfum að finna rétt leikskipulag gegn þeim og passa okkur vel varnarlega, þeir með sóknarlínu fulla af leikmönnum í heimsklassa.

„Við vorum svo nálægt því að vinna í vor. Núna þurfum við að halda áfram að sýna hvað við erum hungraðir í þennan titil."

Athugasemdir
banner
banner