fös 16. september 2022 17:12
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Arnar spurður nánar út í Albert: Óeðlilegt ef hann væri sammála mér
Albert Guðmundsson
Albert Guðmundsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert spilaði einungis eina mínútu í tveimur heimaleikjum í júní.
Albert spilaði einungis eina mínútu í tveimur heimaleikjum í júní.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Guðmundsson, leikmaður Genoa á Ítalíu, er ekki í landsliðshópnum fyrir komandi leiki liðsins. Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður út í Albert á fréttamannafundi í dag. Þar sagði hann eftirfarandi:

„Ég var mjög svekktur út í hugarfar Alberts í síðasta glugga. Það er mikill heiður að vera valinn í landsliðið og menn þurfa að vera 100% með eða ekki. Leikmenn Íslands hafa alltaf sett frammistöðu liðsins fram yfir eigin frammistöðu og ég tel að það sé lykillinn að árangri. Þetta er ákvörðun sem ég tek fyrir þennan glugga en ég loka ekki neinu í framtíðinni. Þegar Albert er tilbúinn að vinna innan þess ramma sem ég set þá er pláss fyrir hæfileikaríka menn eins og hann."

Arnar var til viðtals eftir fundinn og var hann spurður nánar út í Albert.

„Þú þarft alltaf að vera með 100% hugarfar, alla daga, alltaf. Bestu dæmin eru leikmennirnir okkar undanfarin ár, okkar bestu leikmenn, sem hafa alltaf sýnt 100% hugarfar. Það verður til þess að aðrir leikmenn hengja sig á vagninn og læra það og gera það saman."

„Fyrir mig sem þjálfara er þetta ósköp einfalt, ég er með ákveðinn ramma, ákveðið hlutverk og verkefni fyrir hvern og einn leikmann. Ég þarf svo að taka ákvörðun um það hvort menn séu að fylgja því eða ekki. Það er það mikilvægasta í þessu."


Hefur leikstaða á vellinum eitthvað með þetta að gera?

„Mér þætti mjög ófagmannlegt og ósanngjarnt af mér að fara ræða það sem okkur fer á milli. Ég er búinn að ræða þetta við Albert, er búinn að segja honum hvernig mér líður og hann er búinn að segja mér hvernig honum líður. Hann er að sjálfsögðu ekki sammála mér, það væri óeðilegt, en það að fara út í hvað okkur fór á milli væri ekki fagmannlegt," sagði Arnar.

Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.
Arnar um að spila við Venesúela: Ekkert sem landsliðsþjálfari er að pæla í
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner