Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 16. október 2020 10:08
Magnús Már Einarsson
U21 landsliðsmaður Íslands með veiruna - Leikmenn erlendis í sóttkví
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmaður U21 landsliðs Íslands greindist með kórónuveiruna við heimkomu til Danmerkur eftir að hafa spilað með U21 í 2-0 sigri gegn Lúxemborg á þriðjudaginn.

Leikmenn og starfsmenn U21 landsliðs Íslands voru skimaðir fjórum sinnum í verkefninu en enginn reyndist smitaður þá. Leik U21 gegn Ítalíu var frestað í síðustu viku eftir smit í ítalska hópnum en Ísland vann síðan Lúxemborg ytra á þriðjudag.

Nokkrir leikmenn í U21 liði Íslands eru á mála hjá dönskum félögum og einn þeirra greindist með kórónuveiruna við heimkomuna til Danmerkur.

„Við eigum eftir að fá meiri upplýsingar um málið en við settum okkur í samband við öll félög leikmanna sem voru í þessum leik og vitum ekki til þess að annar sé smitaður aða neitt slíkt," sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Fótbolta.net í dag.

Norska félagið Stromsgödset segir að bæði Ari Leifsson og Valdimar Þór Ingimundarson séu komnir í tíu daga sóttkví eftir fréttir af smitinu. Þeir missa því af leiknum gegn Start um helgina. Bæði Ari og Valdimar fóru í skimun við heimkomuna til Noregs og reyndust ekki smitaðir en samkvæmt reglum í Noregi þurfa þeir að fara í sóttkví.

Hugasanlegt er að fleiri leikmenn í íslenska hópnum fari einnig í sóttkví eftir smitið en einhverjir leikmenn fara ekki í sóttkví og spila með liðum sínum um helgina. Einungis leikmenn úr erlendum félagsliðum voru í íslenska hópnum í leiknum gegn Lúxemborg en enginn leikmaður úr íslensku félagi fór með í ferðina.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner