Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 16. nóvember 2018 10:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Danirnir fara frá Keflavík - „Þeir ungu gætu ekki verið á betri stað"
Lasse Rise fann sig ekki með Keflavík í Pepsi-deildinni.
Lasse Rise fann sig ekki með Keflavík í Pepsi-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eysteinn Húni Hauksson.
Eysteinn Húni Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Eysteinn Húni Hauksson mun áfram stýra Keflavík í Inkasso-deildinni á næsta tímabili. Eysteinn kláraði tímabilið sem þjálfari Keflavíkur eftir að Guðlaugur Baldursson hætti á miðju sumri.

Eysteinn náði ekki að koma í veg fyrir það að Keflavík félli úr Pepsi-deildinni, liðið endaði aðeins með fjögur stig.

Eysteinn segir í samtali við Fótbolta.net að í Keflavík séu menn lengi fram eftir að vinna í leikmannamálum.

Hann staðfestir að dönsku leikmennirnir Jeppe Hansen og Lasse Rise séu á förum. Þeir fundu ekki taktinn í Pepsi-deildinni og munu ekki leika með liðinu næsta sumar.

Serbneski bakvörðurinn, Marko Nikolic, sleit krossband í sumar. Hann verður ólíklega áfram. Kantmaðurinn, Juraj Grizelj, er farinn frá Keflavík.

Aðspurður um hvaða erlendu leikmenn verða áfram í Keflavík þá sagði Eysteinn að Skotinn Marc McAusland, sem hefur verið fyrirliði liðsins, verði áfram í herbúðum liðsins.

„Við viljum gefa ungum leikmönnum tækifæri. Hins vegar er ekki nóg að hafa bara lögheimili hér, þú verður að koma með eitthvað sérstakt inn í liðið," segir Eysteinn.

Ungir leikmenn munu fá tækifæri á undirbúningstímabilinu, svo verður staðan tekin með styrkingu á leikmannahópnum.

„Erum ekkert að stressa okkur"
Eysteinn verður með reynsluboltann Milan Stefán Jankovic sér til aðstoðar. Hann var aðstoðarþjálfari Óla Stefáns Flóventssonar í Grindavík og var sterkur orðrómur um að hann myndi fylgja Óla Stefáni til KA, en Keflavík tókst að næla í hann.

Eysteinn er gríðarlega ánægður með þá ráðningu. Hann segir að stefnan sé ekki endilega sett á að fara beint aftur upp í Pepsi-deildina.

„Við erum ekkert að stressa okkur. Ég lít fyrst og fremst á það núna að halda áfram þeirri vinnu sem við vorum að byggja á í sumar, þó það hafi illa gengið að vinna leiki."

„Ég ætla ekki að fara að setja upp einhverjar rosalegar yfirlýsingar um hvar við munum enda. Fyrir okkur snýst þetta fyrst og fremst um það að leikmenn skilji leikinn betur og séu í betra standi til að spila hann," segir Eysteinn.

„Ég lagði mikla áherslu á að fá Jankó. Hann er akkúrat maðurinn sem við þurftum inn í þetta. Þeir ungu leikmenn sem eru hérna, þeir gætu ekki verið á betri stað."
Athugasemdir
banner
banner
banner