fim 17. janúar 2019 14:00
Fótbolti.net
Adda telur líkamlegri þjálfun ábótavant á Íslandi
Adda er í ítarlegu spjalli í nýjasta þætti Heimavallarins. Hún telur að almennt þurfi íslenskir leikmenn að komast í betra líkamlegt form til að standast þeim bestu snúning.
Adda er í ítarlegu spjalli í nýjasta þætti Heimavallarins. Hún telur að almennt þurfi íslenskir leikmenn að komast í betra líkamlegt form til að standast þeim bestu snúning.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er gestur í nýjasta þætti Heimavallarins. Þar fer hún yfir ferilinn í ítarlegu spjalli. Hún lék með Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni veturinn 2015 og segir mesta muninn á sænsku og íslensku deildinni vera líkamlegt atgervi leikmanna.

„Breytingin fyrir mig var ekkert rosalega mikil nema ákefðin var miklu meiri á æfingum. Allar æfingar úti voru eins og erfiðustu æfingarnar heima,“ sagði Adda um dvölina í Svíþjóð.

„Mesti munurinn er líkamlegt atgervi leikmanna. Úti eru allir leikmenn í toppstandi. Minn styrkleiki hefur alltaf verið að geta hlaupið endalaust og vera í góðu standi. Svo þegar ég kom út var ég svona fyrir ofan meðallag í liðinu. Ég var aldrei best eins og ég hafði verið í Stjörnunni.“

Adda vill meina að það vanti upp á líkamlega þjálfun hérlendis og segir það koma í veg fyrir að við komumst í fremstu röð.

„Við sjáum það alveg hjá A-landsliðinu okkar og yngri landsliðum, líka þegar við förum inn í Evrópukeppnina, að við erum ekki að matcha líkamlegt form. Allavegana ekki allir leikmenn. Það eru einn og einn leikmaður sem gera það en við erum ekki allar á þessum stað.“

„Þegar við horfum á U17 liðin okkar þá erum við oft ekki nógu sterkar líkamlega. Þetta er eitthvað sem við megum skoða.“

„Ég held að það sé að verða vitundarvakning núna og meiri þekking á styrktarþjálfun, mataræði og að hugsa um sig. Ég held að ótrúlega margir ungir leikmenn haldi að þeir séu að hugsa vel um sig en séu í raun ekki að því. Ertu að borða nógu mikið? Ertu að æfa rétt? Þegar þú ferð á aukaæfingu, ertu að æfa það sem þú ert langbest í eða ertu að æfa veikleikana þína? Ertu að taka aukaæfinguna til þess að verða betri eða bara til þess að segjast hafa verið á aukaæfingu?“
segir Adda sem vill leggja meiri áherslu á innleiðingu styrktarþjálfunar, líka í yngri flokkum.

„Lið eru að koma inn með styrktarþjálfara og ég vona að á næstu árum muni það skila okkur lengra.“

Smelltu hér til að hlusta á allt viðtalið við Öddu á Heimavellinum.


Heimavöllurinn er einnig á Instagram þar sem knattspyrna kvenna er í forgrunni. Þar eru knattspyrnu kvenna gerð skil á lifandi og fjölbreyttan hátt. Þangað rata helstu fréttir, leikmaður vikunnar er valinn og knattspyrnukonur svara hraðaspurningum svo eitthvað sé nefnt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner