banner
   fim 17. janúar 2019 18:00
Magnús Már Einarsson
Brentford fagnar landsliðsvali Kolbeins - Spilar með öðruvísi B liði
Kolbeinn í leiknum gegn Svíum.
Kolbeinn í leiknum gegn Svíum.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mikil ánægja er hjá enska félaginu Brentford eftir að Kolbeinn Birgir Finnsson spilaði sína fyrstu landsleiki fyrir Íslands hönd. Kolbeinn spilaði sinn fyrsta landsleik í 2-2 jafntefli gegn Svíum á föstudag og var síðan valinn maður leiksins í markalausa jafnteflinu gegn Eistlandi

Kolbeinn er 19 ára Árbæingur en hann fór frá Fylki til Groningen árið 2015. Síðastliðið sumar gekk hann síðan til liðs við Brentford.

„Við erum mjög stoltir og ánægðir fyrir hönd Kolbeins en líka fyrir hönd Brentford því þetta er gott fyrir okkur og sýnir hvað við sem félag viljum gera," sagði Lars Friis í þjálfaraliði Brentford.

Kolbeinn og markvörðurinn Patrik Gunnarsson hafa báðir spilað með B-liði Brentford en starfið þar er öðruvísi en hjá öðrum félögum.

Hjá flestum félögum eru U23 ára liði en Brentford er þess í stað með B lið þar sem má finna leikmenn frá Íslandi, Danmörku og Finnlandi sem og unga leikmenn sem hafa komið til Brentford frá Manchester City, Brighton, Chelsea og Celtic.

Um síðustu helgi stóð Patrik á milli stanganna þegar B-lið Brentford sigraði U19 ára lið Bayern Munchen 5-2 í Þýskalandi. Kolbeinn var fjarri góðu gamni þar vegna landsleikjanna.

B-lið Brentford spilar æfingaleiki gegn U23 ára liðum á Englandi, aðalliðum í ensku utandeildinni sem og gegn yngri liðum frá öðrum þjóðum. Tilraun félagsins þykir hafa gefið góða raun hingað til.

Aðallið Brentford er í ensku Championship deildinni þar sem það situr í 17. sæti af 24 liðum í augnablikinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner