banner
   fim 17. janúar 2019 18:30
Magnús Már Einarsson
Mögnuð saga Andra - Breytti um lífsstíl og fór að raða inn mörkum
Andri vann gullskóinn í Pepsi-deildinni 2017.
Andri vann gullskóinn í Pepsi-deildinni 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Andri spilaði sína fyrstu landsleiki í fyrra.
Andri spilaði sína fyrstu landsleiki í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á einu og hálfu ári hefur Andri Rúnar Bjarnason jafnað markametið í Pepsi-deildinni, orðið markakóngur í sænsku B-deildinni með Helsingborg og spilað sína fyrstu landsleiki.

Smelltu hér til að hlusta á Andra í Miðjunni

„Það er gaman að sýna þetta sé hægt. Ég fékk að heyra það í fjölmiðlum og hjá öðrum að ég væri orðinn of gamall en það er gaman að sýna að svo er ekki," sagði hinn 28 ára gamli Andri í Miðjunni á Fótbolta.net.

Andri er uppalinn í Bolungarvík en hann lék með BÍ/Bolungarvík fyrstu árin í meistaraflokki áður en hann spreytti sig með Víkingi R. í Pepsi-deildinni sumarið 2015. Þá skoraði hann tvö mörk í sautján leikjum.

„Eftir þetta tímabil tók ég ákvörðun um að gera þetta. Ég æfði eins og skepna um veturinn og var kominn í hörkustand," sagði Andri Rúnar.

Fékk skilaboð um að æfa betur
Andri fékk hins vegar lítið að spila með Víkingi fyrir sumarið 2016 þar sem hann var að berjast við Gary Martin, Óttar Magnús Karlsson og Vitor Jónsson um framherjastöðuna. Úr varð að hann fór í Grindavík um vorið og skoraði sjö mörk þegar liðið vann Inkasso-deildina.

„Það var drullugaman með Grindavík fyrra sumarið, við vorum að vinna leiki og spila skemmtilegan fótbolta en ég fann að ég átti samt svo mikið inni því ég var ekki í standi," segir Andri um sumarið 2016.

„Jankó (Milan Stefán Jankovic) og Óli Stefán (Flóventsson) hafa séð mjög marga leikmenn en þeir sögðu að ég væri besti strikerinn á Íslandi í dag, ég væri bara of þungur. Ég hugsaði með mér að ef þeir sjá hvað ég er góður og ég er 50%, hvað get ég þá gert. Þeir sögðu mér að taka gott undirbúningstímabil og þá gæti ég farið út eftir næsta tímbail. Ég setti mér það markmið."

Hljóp á hlaupabretti á morgnanna
Andri breytti um lífsstíl og það átti heldur betur eftir að skila sér því hann jafnaði markametið í Pepsi-deildinni 2017 og fór í kjölfarið til Helsingborg. Á bakvið það lá mikil vinna.

„Ég æfði aukalega. Ég var að hlaupa á morgnanna til að brennna og létta mig. Ég fór yfirleitt á hlaupabretti í World Class og tók 5-7 kílómetra," sagði Andri.

„Á frídögum fór ég í World Class til að teygja og gera þessa leiðinlegu hluti sem maður gerir ekki ef maður er heima. Ég tók til í mataræðinu og varð aftur léttur. Ég varð aftur fljótur eftir að hafa ekki verið með hraða í 2-3 ár."

Hausinn mikilvægastur
Andri fór að starfa hjá Hringdu samhliða því að spila með Grindavík og það hjálpaði honum.

„Ég vaknaði 6 og fór í ræktina áður en ég fór að vinna. Ef það voru æfingar þá hliðruðu þeir til fyrir mig í vinnunni. Maður var í rútínu og að borða reglulega. Maður var ekki að vakna á hádegi ef það var æfing seinni partinn eins og áður fyrr."

Andri lét ekki staðar numið eftir sumarið með Grindavík því hann hélt áfram að æfa af miklum krafti með Helsingborg í Svíþjóð. Hann lét mikið að sér kveða á fyrsta tímabili ytra og varð markakóngur þegar Helsingborg vann deildina.

„Ég var að vinna eins og skepna á síðasta tímabili. Ég hef aldrei hlaupið eins mikið í leikjum. Ég átti einn leik upp á 13,7 kílómetra en annars var ég í 12 eða 12,5 kílómetrum," sagði Andri. „Ég er ekkert hættur. Ég horfi ennþá lengra og vonandi næ ég að fara eins langt og mögulegt er."

Andri hefur sjálfur verið beðinn um að vera fyrirlestra fyrir yngri iðkendur á Íslandi um líf atvinnumannsins. Aðspurður um ráð til yngri kynslóðarinnar segir Andri: „Hausinn skiptir mestu máli. Þú þarft að þjálfa hann jafn mikið og touchið, formið og annað."

Andri er staðráðinn í að halda áfram að raða inn mörkum með Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni á komandi tímabili. „Fyrst og fremst er markmiðið okkar að koma liðinu sem fyrst upp í efri hluta deildarinnar. Ég held að ég þurfi að skora svolítið til að það gerist. Ég er tilbúinn í það," sagði Andri ákveðinn í viðtali í Miðjunni á Fótbolta.net.

Smelltu hér til að hlusta á Andra í Miðjunni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner