mið 17. febrúar 2021 14:30
Magnús Már Einarsson
Efi um að framboð Orra hjá ÍTF sé löglegt
Orri Hlöðversson og Geir Þorsteinsson berjast um formannsstólinn á morgun.
Orri Hlöðversson og Geir Þorsteinsson berjast um formannsstólinn á morgun.
Mynd: Samsett
Haraldur Haraldsson hættir sem formaður ÍTF á morgun.
Haraldur Haraldsson hættir sem formaður ÍTF á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Haraldsson lætur á morgun af störfum sem formaður hjá Íslenskum Toppfótbolta eftir fjögurra ára starf. Orri Hlöðversson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks og Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, berjast um formannsstólinn en kosið verður um nýjan forman á aðalfundi á morgun.

Íslenskur toppfótbolti eru hagsmunasamtök knattspyrnufélaganna í efstu tveimur deildum karla og kvenna á Íslandi. Formaður ÍTF fær jafnframt sæti í stjórn KSÍ samkvæmt breytingu sem var gerð á ársþingi KSÍ.

Vísir greinir frá því í dag að titringur sé í knattspyrnuhreyfingunni vegna framboðs Orra. Einn viðmælenda Vísis orðaði það þannig að yrði Orri kjörinn formaður á morgun væru forsendur fyrir áframhaldandi starfi samtakanna brostnar.

Einn frá hverju félagi má vera í stjórn
Á morgun er kosið um þrjú stjórnarsæti hjá ÍTF sem og formann. Sævar Pétursson (KA), Jónas Kristinsson (KR) og Helgi Aðalsteinsson (Breiðabliki) eru allir í stjórninni í ár í viðbót en þeir voru kosnir til tveggja ára í fyrra.

„Samkvæmt sáttmála aðildarfélaga ÍTF má í mesta lagi einn fulltrúi frá hverju félagi sitja í stjórn samtakanna hverju sinni. Hvert aðildarfélag getur boðið fram einn fulltrúa í stjórn og stjórnarmenn eru kjörnir til tveggja ára í senn. Auk formanns sitja sex í stjórn og er Helgi Aðalsteinsson úr Breiðabliki einn þeirra, eftir að hafa verið kosinn í fyrra, og ætti hann því að sitja eitt ár í viðbót hið minnsta," segir í frétt Vísis.

„Miðað við minnisblað eins lögfræðings, sem stjórn ÍTF kallaði eftir og Vísir hefur undir höndum, myndi ekki heldur ganga upp að Orri byði sig fram með fyrirvara um að Helgi myndi víkja sæti, eins og Blikar hafa lagt upp með. Er í minnisblaðinu til að mynda bent á að í því fælist ósanngirni fyrir önnur félög sem fyrir eigi fulltrúa í stjórn, sem skilji reglurnar þannig að það hafi engan tilgang að bjóða fram annan fulltrúa félagsins í stjórn eða til formanns."

„Það er hins vegar mat Orra og Haraldar, fráfarandi formanns ÍTF, að málið sé ekki svo einfalt. Haraldur segir við Vísi að niðurstaðan úr samræðum og minnispunktum frá lögfræðingum sé sú að taka verði málið fyrir á aðalfundinum á morgun og fá úr því skorið hvað sé rétt að gera. Það sé aðalfundurinn sem fari með æðsta vald samtakanna, eins og fram kemur í 5. grein samþykkta og sáttmála aðildarfélaga ÍTF,"
segir á Vísi.

Bréfaskriftir
Bréfaskriftir ganga á milli manna innan hreyfingarinnar fyrir aðalafundinn á morgun. Í tölvupósti sem Orri sendi á félög í morgun segir hann meðal annars að framboð sitt sé sett fram með þeim hætti að verði hann kosinn á fundinum muni núverandi stjórnarmaður Blika víkja úr stjórn.

Aðalfundurinn fer fram síðdegis á morgun og þar verður þetta mál til lykta leitt.
Athugasemdir
banner
banner