sun 17. mars 2019 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Pato er samningslaus - Gæti farið aftur til Ítalíu
Pato spilaði aðeins tvo leiki á láni hjá Chelsea og skoraði eitt mark.
Pato spilaði aðeins tvo leiki á láni hjá Chelsea og skoraði eitt mark.
Mynd: Getty Images
Alexandre Pato er búinn að binda enda á samning sinn við Tianjin Quanjian í Kína og er því frjáls ferða sinna.

Pato braust fram á sjónarsviðið þegar hann gekk í raðir AC Milan fyrir meira en áratugi síðan. Þá var hann ekki orðinn 18 ára og álitinn ein helsta framtíðarstjarna knattspyrnuheimsins.

Hann gerði góða hluti hjá Milan en tókst ekki að uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til hans. Hann var hjá Milan í sex ár en mikil meiðslavandræði settu strik í reikninginn og var hann seldur aftur til Brasilíu. Eftir nokkur ár í Brasilíu var Pato lánaður til Chelsea en kom aðeins við sögu í tveimur leikjum þar áður en hann var seldur til Villarreal fyrir lítinn pening.

Á Spáni fékk Pato góðan spilatíma og vakti athygli á sér, sem endaði með því að Tianjin Quanjian keypti hann fyrir 16 milljónir punda. Í Kína gerði Pato frábæra hluti og skoraði 30 mörk í 47 deildarleikjum en var óhamingjusamur og ákvað þess vegna að rifta samningi sínum.

Pato er 29 ára og líklegast á leið aftur í ítalska boltann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner